Breiðholtinu blæðir

 í flokknum: Pistill

Breiðholtið er fjölmennasta hverfi Reykjavíkur og er íbúafjöldi þess svipaður og kjósendafjöldi Norðvesturkjördæmis. Þrátt fyrir það er áhugi ríkisvaldsins ansi takmarkaður á Breiðholtinu. Og því til staðfestingar er sjálft fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Fjárlagafrumvarpið er stærsta mál sérhvers þingvetrar. Þar kemur pólitík ríkisstjórnarinnar fram en til að sjá hver pólitíkin er, þarf að elta peningana. Og það skulum við gera.

Döpur löggæsla

Gott dæmi um skelfilega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er staða löggæslumála í hverfinu en tveir bílar skipta með sér Breiðholti og Kópavogi en að baki þeim eru í kringum 60 þúsund íbúar. Eftir hrun var forvarnarstarf lögreglu skorið niður en mikilvægt er að verja fé í þágu forvarna og almennrar löggæslu. Til viðbótar er ansi dapurt að sjá að almenn löggæsla í landinu fær beinlínis lækkun á fjárframlögum á milli ára í fjárlagafrumvarpi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Færri lögreglumenn eru nú á landinu en fyrir 10 árum þrátt fyrir fimmföldun ferðamanna og aukinn íbúafjölda á tímabilinu. Ef stjórnmálamenn bregðast jafn illa gagnvart grundvallaratriði eins og löggæslu þá er þeim vart treystandi fyrir öðru.

Lækkun fjármuna til FB

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur verið tíðrætt um stórsókn í menntamálum. Þegar nánar er að gáð, er eina sóknin í yfirlýsingum ráðherranna. Í fjárlagafrumvarpinu kemur skýrt fram að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti fær raunlækkun á fjárframlögum á milli ára. Framhaldsskólastigið í heild sinni á landinu öllu fær einnig lækkun á milli ára. Það er skrýtin sókn sem fer aftur á bak. Því til viðbótar munu Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskólinn fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra en þetta eru skólar sem margir Breiðhyltingar sækja.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum fjölmenningar

Ég vil biðja fólk um að setja sig í spor 11 ára drengs frá Spáni með enga enskukunnáttu og sem byrjar í Breiðholtsskóla. Eða setja sig í spor 17 pólskar stúlku sem kemur hérna með foreldrum sínum og hefur áhuga að menntaskólamenntun hér á landi. En þegar kemur að menntamálum barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku ríkir kyrrstaða sem m.a. sést á skorti á námsgögnum á fjölbreyttum tungumálum og færnimati ungmenna þegar í framhaldsskóla er komið. Hér mætti t.d. hugsa sér tækifæri í að móta braut í FB sem tekur tillit til þarfa þessara ungmenna og styður þau meðan þau er í aðlögun. Þjónusta við nýja Íslendinga er alltof sundurlaus. Stefnuleysið birtist meðal annars í að grunnkerfi velferðar-, heilbrigðisog menntamála tala lítið saman. Talsvert vantar á þjónustu við nýja Íslendinga og þá sem hingað flytjast. Félagsleg virkni, tungumálakennsla og góð heilsa skiptir miklu máli þegar sest er að í nýju landi en þessi málaflokkur hefur einfaldlega ekki verið í forgangi hjá stjórnvöldum.

Héraðssjúkrahús Breiðhyltinga í krísu

Landspítalinn er ekki einungis spítali allra landsmanna heldur er hann einnig svokallað héraðssjúkrahús Breiðhyltinga. Lítum á tölurnar sem eru í boði ríkisstjórnarinnar. Að öllu óbreyttu stefndi í 4 milljarða kr. halla hjá Landspítalanum í ár. Á sama tíma og ófremdarástand er á bráðamóttöku spítalans og „umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir standa yfir á Landspítalanum“ samkvæmt forstjóra spítalans vill ríkisstjórnin nú ná 1,2 milljarði kr. til viðbótar í aðhaldi úr heilbrigðiskerfinu. Í ljósi stærðar Breiðholts búa fjölmargir aldraðir og öryrkjar í hverfinu. En hvað segir fjárlagafrumvarpið í þeim efnum? Engin sérstök viðbót er sett til aldraða og afnám krónu á móti krónu gagnvart öryrkjum er enn ófjármagnað. Enn eru öryrkjar því látnir bíða eftir réttlætinu, sem Katrín Jakobsdóttir sagði þegar hún var í stjórnarandstöðu að þeir mættu alls ekki gera. Merkilegt hvað breytist mikið við að setjast í ríkisstjórn.

Forgangur hinna ríku

Það sýnir hins vegar vel hvaða hagsmunum ríkisstjórn Vinstri græna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar helst gætir að, þegar upphæð veiðileyfagjalda hefur lækkað um tæp 40% síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Og núna er lækkun erfðafjárskatts og bankaskatts fyrir þá sem mest mega sín sett í forgang. Fjármagnstekjuskatturinn skal áfram vera lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum þrátt fyrir að 5% ríkustu landsmanna eiga svipað mikið af eignum og hin 95% þjóðarinnar. Ríkisstjórnin sér um sína. Mannauður Breiðholts er mikill en það dugar ekki einungis að líta á þetta stóra samfélag út frá sveitastjórnarstiginu heldur þarf einnig að skoða hagsmuni þess út frá því sem ríkisvaldið getur gert og gerir. Þar skipta fjárlög ríkisstjórnarinnar máli og þau eru blaut tuska framan í alla íbúa Breiðholts.

Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður

Nýlegar færslur
Helga Vala