Kærleikar í Hagaskóla, Höfði Mathöll og hefurðu hugmynd fyrir Hverfið mitt? – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 22. febrúar 2019

Veturinn snéri skyndilega aftur í vikunni en það er eitthvað sem hættir ekki að koma okkur á óvart. Veðurfræðingar hafa hvatt borgarbúa til að klára erindi sín fyrr en seinna í dag vegna veðurspárinnar sem gæti breyst úr gulri viðvörun í appelsínugula án mikils fyrirvara og þá er ágætt að vera komin heim í hlýjuna.

Fólk dagsins eru samt alltaf unglingarnir úr Hagaskóla sem gengu fylktu liði í snjókomunni og komu þannig rækilega á framfæri skilaboðum sínum um mannúð, samstöðu og kærleika í garð skólasystur sinnar, Zainab Safari og fjölskyldu hennar, sem eiga það yfir höfði að vera vísað úr landi.

Annars var sérstaklega gaman að koma í Höfða Mathöll sem opnaði fyrir okkur almenning í dag. Átta nýir og spennandi staðir með allskonar mat og flotta stemmningu. Ég er sannfærður um að Höfði Mathöll muni styðja við þau áform að umbreyta Höfðunum í spennandi og blómstrandi borgarhverfi á næstu árum. Spjallaði við veitingafólk og frumkvöðlana á staðnum og hlakka til að kynna mér þetta betur. Nú þegar höfum við Hlemm og Grandann og er þetta kærkominn viðbót í þetta mathallakonsept sem sannarlega hefur verið að taka sér pláss á undanförnum árum.

Hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt hófst í vikunni. Íbúar geta sent inn góðar hugmyndir fyrir sitt hverfi fram til 9. apríl. Þetta vel heppnaða lýðræðisverkefni fær alltaf betri og betri viðtökur enda hafa hugmyndir íbúa skilað vatnsrennibrautum, frisbígolfvöllum, grillaðstöðu við opin svæði og margt margt fleira. Ég sé að nú þegar hefur einhver stungið upp á pálmatrjám í Skipasundi og að borgin opni nýja sundlaug í staðinn fyrir bílastæði Landsvirkjunar sunnan við Austurver, svokallaða Austurbæjarlaug. Þetta eru allt skemmtilegar hugmyndir í bland við aðrar jarðbundnari. Svo höfum við lækkað kosningaaldurinn í Hverfið mitt niður í 15 ár sem hefur gefið góða raun. Hvet ykkur til að taka þátt.

Þessu tengt. Við samþykktum í borgarráði að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna verkefna sem voru kosin í Hverfið mitt á síðasta ári. Meira úr borgarráði en við samþykktum að úthluta lóðum til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga undir 153 íbúðir í Bryggjuhverfinu. Meira um það fyrir neðan. Við fengum líka kynningu í borgarráði á viðhorfskönnun íbúa til ýmissa þjónustuþátta borgarinnar. Við erum að mjakast aðeins upp á við í heildina en ýmislegt sem má bæta. Þá fengum við fínar niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal starfsmanna borgarinnar þar sem við erum líka að færast upp á við. Við samþykktum líka að heimila umhverfis- og skipulagssviði að fara í útboð á malbikun fyrir sumarið. Stórátak í malbikun hófst árið 2016 og náði hámarki á síðasta ári. Séu árin 2017, 2018 og 2019 tekin saman er um að ræða meira en 100 km af nýmalbikuðum götum í Reykjavík. Meira um það fyrir neðan.

Minni svo á að Hönnunarmars hefst í næstu viku. Alltaf frábær stemmning sem myndast í miðborginni á þessari skemmtilegu hátíð, dagskráin er hér.

Ég vil endilega að þú sendir mér línu ef eitthvað er og ef þú vilt afskrá þig af þessum póstlista er hnappur hér fyrir neðan.

Góða helgi!

Björgun á förum – Bjarg og Búseti byggja

Í borgarráði í gær úthlutuðum við Bjargi, byggingarfélagi verkalýðshreyfingarinnar, lóðum fyrir um 120 nýjar leiguíbúðir á viðráðanlegu verði í Bryggjuhverfinu. Jafnframt var Búseta, sem einnig er óhagnaðardrifið byggingarfélag, úthlutað lóð fyrir um 30 íbúðir á sama stað. Þetta undirstrikar áherslu borgarinnar á húsnæði á viðráðanlegu verði. Og áframhaldandi samstarf við óhagnaðardrifin byggingarfélög sem vinna að sama markmiði. Jafnframt markar þessi lóðaúthlutun líka upphafið að nýjum áfranga í stækkun Bryggjuhverfisins. Þetta eru fyrstu lóðirnar sem úthlutað er inn á lóð Björgunar sem Reykjavíkurborg hefur nú eignast og Björgun víkur af 1. júní nk. Fyrirtækið vinnur nú að fyllingum vegna framtíðaríbúðarhverfis og síðari áfanga Bryggjuhverfisins. Myndirnar sem hér fylgja eru frá landfyllingarvinnunni sem fram fór í febrúar á síðasta mánuði.

Frístundastarf í Reykjavík – veistu um framsækið verkefni?

Við auglýstum í vikunni eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs 2019 vegna framsækins frístundastarfs og samstarfsverkefna í Reykjavík. Vildi vekja athygli á þessum tilnefningum vegna þess að um alla borg á sér stað frábært og framsækið frístundastarf sem ekki allir taka eftir. Þess vegna er svo mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert þannig að aðrir geti mögulega tileinkað sér það. Frestur til að skila inn tilefningum er 5. apríl en það má senda allar tilnefningar ásfs@reykjavik.is

Götunar sem verða malbikaðar í sumar

Göturnar sem malbikaðar verða í ár eru Amtmannsstígur, Arnarbakki, Áland, Ármúli, Ásvegur, Bankastræti, Barðavogur, Barmahlíð, Barónsstígur, Bergstaðastræti, Bitruháls, Bláskógar, Blómvallagata, Bollagata, Borgartún, Bólstaðarhlíð, Bragagata, Breiðhöfði, Brúnaland, Bústaðavegur, Bæjarháls, Dvergshöfði, Efstaleiti, Efstasund, Egilsgata, Eikjuvogur, Engjateigur, Fannafold, Faxafen, Fellsmúli, Fellsvegur, Flókagata, Flugvallarvegur, Framnesvegur, Frostaskjól, Gamla Hringbraut, Garðastræti, Grensásvegur, Grettisgata, Grundarhús, Guðrúnargata, Gullengi, Háahlíð, Háaleitisbraut, Hálsabraut, Hátún, Holtavegur, Holtsgata, Hólmgarður, Hraunás, Hraunberg,Hraunbær, Hrefnugata, Hringtorg við Fellsveg, Höfðabakki, Iðunnarbrunnur, Jónsgeisli, Jöldugróf, Kaplaskjólsvegur, Katrínarlind, Katrínartún, Keilugrandi, Kirkjustétt, Kjalarland, Kleppsmýrarvegur, Krókháls, Kúrland, Lambhagavegur, Langahlíð, Langholtsvegur, Langirimi, Laufengi, Laugavegur, Lágmúli, Leirubakki, Leirulækur, Lindargata, Logafold, Lækjargata, Marteinslaug, Menntasveigur, Miklabraut, Mjölnisholt, Nauthólsvegur, Norðurfell, Nökkvavogur, Rauðagerði, Rauðarárstígur, Reykjahlíð, Reyrengi, Réttarsel, Rofabær, Selásbraut, Seljaskógar, Skeiðarvogur, Skeifan, Skógarsel, Snekkjuvogur, Snorrabraut, Sóleyjargata, Sólheimar, Sólvallagata, Stakkahlíð, Stjörnugróf, Stórhöfði, Strandvegur, Strengur, Sturlugata, Suðurfell, Suðurhlíð, Suðurhólar, Suðurlandsbraut, Tranavogur, Urriðakvísl, Vagnhöfði, Vallargrund, Vallarhús, Vatnagarðar, Vegbrekkur Vesturgata, Viðarhöfði, Vitastígur, Víðihlíð, Víkurvegur, Vínlandsleið, Þingholtsstræti, Þórðarsveigur, Þverholt og Öldugata

ASK arkitektar hljóta verðlaun fyrir rammaskipulag Skerjafjarðar

Ég óska ASK arkitektum innilega til hamingju með að hafa fengið verðlaun fyrir Rammaskipulag Skerjafjarðar sem í dag hlaut skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélags Íslands 2018. Skipulagið er unnið af ASK arkitektum í samstarfi við EFLU og Landslag fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár en þema verðlaunanna 2018 var „skipulag fyrir fólk“. Horft var til faglegrar skipulagsgerðar þar sem velferð fólks er sett í öndvegi. Við eigum alveg ótrúlega mikið af góðum arkitektum og endurspeglar rammaskipulagið í Skerjafirði nákvæmlega virði þeirra og góðs og farsæls samstarfs við borgina. Til hamingju!

 

Nýlegar færslur