Nýjustu tölur, Planet Youth og framkvæmdir á nítján skólalóðum – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 8. mars 2019

Ísköld en björt vika að baki í borginni. Líklegt að það snjói eitthvað aðeins um helgina. Annars er ýmislegt framundan. Lokahelgi Stockfish er i Bió Paradis stendur yfir og hinn magnaði Hönnunarmars fer fram í Reykjavík síðustu helgina í mars. Bendi ykkur öllum á fína yfirlitssíðu yfir viðburði í Reykjavík hér.

Við héldum borgarstjórnarfund í vikunni þar sem við samþykktum tillögu um að endurheimta Miðbakkann sem almannarými. Síðustu áratugi hefur hann einkum farið undir bílastæði og girðingar. Nú þegar nýr og gríðarstór bílakjallari er að opna gefst færi á að nýta yfirborðið fyrir mannlíf og eitthvað skemmtilegt. Það verður gaman að fylgjast með hugmyndunum sem koma fram.

Það hefur ekki farið hátt en nokkur hundruð einstaklingar alls staðar að úr heiminum hafa verið í Reykjavík þessa viku til að kynna sér aðferðir okkar í forvörnum og starfi með börnum og ungu fólki. Verkefnið heitir Planet Youth en það byggir á forvarnarverkefnið sem hófst í Reykjavík fyrir um 20 árum. Í ljósi ótrúlegs árangurs á þeim tíma þar sem við fórum frá því að vera sú þjóð þar sem unglingarnir reyktu mest og drukku mest af áfengi, höfum við færst neðst á þann lista. Unga fólkið okkar reykir því minnst og drekkur minnst allra unglinga í Evrópu. Þessu hafa eðlilega margar borgir og mörg lönd sýnt áhuga, meira um það fyrir neðan.

Í borgarráði samþykktum við að bjóða út endurbætur á alls 19 skóla- og leikskólalóðum fyrir alls 500 milljónir á þessu ári. Við ákváðum líka að auglýsa tvær úrvals fjölbýlishúsalóðir við Hraunbæ/Bæjarháls og fjórar nýjar atvinnulóðir í Suður-Mjódd. Verður gaman að sjá viðtökurnar og tilboðin sem út úr því koma. Við samþykktum einnig að auglýsa eftir nýjum sviðsstjórum fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs og starfsumhverfissviðs en þessi nýju svið urðu til við einföldun og uppstokkun á stjórnkerfi borgarinnar nýverið  Við samþykktum einnig tilboð sem við fengum í græna skuldabréfaútgáfu borgarinnar. Græn skuldabréf eru nýjung sem ætlað er að fjármagna græn fjárfestingarverkefni borgarinnar eins og Borgarlínu, gerð göngu- og hjólastíga, innleiðing á LED ljósum fyrir götulýsingu og hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Í útboðinu fengum við bestu kjör sem elstu menn una, Þar fer saman áhugi á grænum skuldabréfum og mat markaðarins á sterkri fjárhagsstöðu borgarinnar. Hvort tveggja er fagnaðarefni.

Við fengum líka yfirlit í borgarráði yfir kostnað vegna aksturssamninga, leigubílakostnað og fleira. Þar vakti mesta athygli hve mikill sparnaður varð við afnáms aksturssamninga hjá Reykjavíkurborg. Aksturssamningar við starfsfólk borgarinnar voru afnumdir í lok árs 2014 m.a. vegna hagræðingar og til þess að jafna kynbundinn launamun. Í staðinn komu akstursbækur. Aðgerðin hefur sparað borginni um 700 milljónir á undanförnum árum. Leigubílakostnaður jókst mun minna á móti en búist hafði verið við eða um tæplega 60 milljónir á þessum árum. Þannig hafa sparast meira en 600 milljónir nettó með breytingunni.

Ég hvet svo alla til að njóta helgarinnar og minni þá sem vilja sjá æsispennandi handboltaleik að mæta og styðja ÍR á móti FH i undanúrslitum bikarsins i Höllinni í kvöld.

Nýjustu tölur úr Reykjavík

Ég skrifaði grein í vikunni sem heitir Nýjustu tölur úr Reykjavík. Fannst mikilvægt að halda til haga ákveðnum tölulegum staðreyndum um Reykjavík og þróun borgarinnar. Greinin er hér. Vissir þú til dæmis að íbúafjölgun í Reykjavík hefur verið með allra mesta móti undanfarin ár. Íbúum fjölgaði um 2.800 í Reykjavík árin 2016 og 2017, hvort ár. Þá hefur störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu um 26.000 á síðustu átta árum, langmest í Reykjavík. Undanfarin ár hefur afgangur borgarsjóðs verið 2,6 milljarðar árið 2016 og tæpir fimm milljarðar árið 2017. Afgangur samstæðunnar þar sem öll fyrirtæki í eigu borgarinnar eru meðtalin, hefur verið 26 milljarðar árið 2016 og 28 milljarðar árið 2017. Á þessu sama tíma hefur stórauknu fé verið varið í skólamál og velferðarmál því forgangsröðunin hefur verið sú að þessir málaflokkar eru í fyrsta forgangi. Eru þá ótalin framlög til húsnæðismála þar sem við verjum 69 milljörðum til þess málaflokks til 2022 skv. samþykktri fimm ára áætlun borgarinnar. Og talandi um húsnæðismálin, þá eru að streyma út á markaðinn næstu misseri fjöldi íbúða til sölu og leigu auk þess sem óhagnaðardrifin félög byggja nú íbúðir af miklum móð. Á síðasta ári var hafin smíði á 1.417 íbúðum sem er stærsta einstaka byggingarár í sögu Reykjavíkur. Reykjavik er borg í blóma.

500 milljónir í endurgerð á nítján lóðum við leik og grunnskóla á þessu ári

Reykjavíkurborg setur 500 milljónir króna í endurgerð á nítján lóðum við leik og grunnskóla á þessu ári. Við samþykktum í borgarráði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð og ýmsar lagfæringar á alls 19 lóðum við leik- og grunnskóla. Um er að ræða fjórar leikskólalóðir, á Ægisborg  og Seljakoti verður ráðist í fyrsta áfanga og á Kvistaborg og Seljaborg verður haldið áfram með annan áfanga framkvæmda. Þá verður framkvæmt á fjórum lóðum við grunnskóla í borginni, við Grandaskóla, Háteigsskóla, Ártúnsskóla og Rimaskóla. Þá verður farið í smærri framkvæmdir við Sunnuborg, Múlaborg, Litla Holt, Engjaborg, Nes – Hamra, Fífuborg, Lyngheima, Klettaborg, Björtuhlíð, Hulduheima og Maríuborg. Áætlað er að byrja í maí og klára síðar í haust á þessu ári.

Liggur okkur lífið á? Loftslagsfundur á Kjarvalsstöðum

Umhverfis- og skipulagssvið hefur staðið fyrir vel heppnuðum fundum á Kjarvalsstöðum á undanförnum árum um málefni tengd skipulagi, arkitektúr, samgöngum og loftslagsmálum. Nú er fundarröðin að hefjast á nýjan leik þar sem fókusinn er öðru fremur á loftslagsmál. Þetta er m.a. gert vegna þess að í loftslagsstefnunni okkar kemur fram nauðsyn þess að standa fyrir vitundarvakningu í loftslagsmálum. Fyrsti fundur verður haldinn næsta þriðjudag 12. mars klukkan 20. Á þessum fyrsta fundi mun Pétur Halldórsson frá Ungum umhverfissinnum vera með öfluga kynningu og vonandi vekja umræður. Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir frá Grænni byggð, Halldór Þorgeirsson frá Loftslagsráði og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs munu bæta við, bregðast við og taka þátt í umræðum sem fram fara á eftir. Hvet ykkur til að mæta. Hér er viðburðurinn á facebook.

Nýlegar færslur