Kvikmyndaverðlaun til Reykjavíkur, Torg í biðstöðu og vor í lofti? – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 1. mars 2019

Það er engu líkara en að vor sé í lofti í Reykjavík, svo milt hefur veðrið verið undanfarna daga. Það er gott að finna birtuna taka við af skammdeginu og borgin kemur vel undan vetri. Við skulum þó ekki láta blekkjast alveg því mars og apríl með tilheyrandi páskahreti eru eftir!

Ég er stoltur af því að vera borgarstjóri í borg þar sem ungt fólk mætir viku eftir viku á Austurvöll til vekja athygli á lofstslagsmálum og hvetja til aðgerða. Ég hef oft sagt þetta en nú er að alast upp efnilegasta kynslóð Íslandssögunnar og það var sú kynslóð sem nú hefur sagt hingað og ekki lengra. Við verðum að gera í betur í loftslagsmálum og ég tek þessari hvatningu fagnandi. Loftslagsmálin koma víða við en lykilatriðin snúa að samgöngum, bæði breyttum ferðavenjum og orkuskiptum. Ég vonast til að það náist samstaða um að stíga stærri skref i þeim efnum á næstunni og átti meðal annars um það ánægjulega fundi með umhverfisráherra og ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra í vikunni, ásamt Líf Magneudóttur sem fer fyrir umhverfis- og heilbrigðisráði borgarinnar.

Ein stærsta fréttin í þessari viku að mínu mati er að staðfest var að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhend í Reykjavík – í Hörpu á næsta ári. Þetta varð niðurstaða evrópsku kvikmyndaakademíunnar eftir samkeppni þriggja borga. Skrifað var undir samninga þessa efnis í vikunni. Í þessu felst mikil viðurkenning fyrir íslenska kvikmyndagerð, en einnig Reykjavík og síðast en ekki síst Hörpu, en ljóst er að viðburðir af þessu tagi væru útilokaðir í borginni ef þessa glæsilega tónlistar- og ráðstefnuhúss okkar nyti ekki við. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að því að koma þessu spennandi máli í höfn.

Reykjavíkurborg opnaði Mælaborð borgarbúa í vikunni. Þar er birt staða á ýmum mælikvörðum, verkefnum og viðfangsefnum sem borgin er að fást við á hverjum degi. Upphaflega var hugmyndin að búa til mælaborð borgarstjóra og mælaborð yfirstjórnar borgarinnar en eftir að vinnan hófst, þá var niðurstaðan að þetta væru upplýsingar sem ættu að vera opnar og öllum aðgengilegar á vefsíðu borgarinnar. Endilega kíktu á mælaborðið hér.

Það var ekkert borgarráð í vikunni en í síðustu viku samþykktum við að leigja út gamla leikskólahúsið að Bergþórugötu 20 til Andrýmis sem eru regnhlífasamtök grasrótarhreyfinga. Þar erum við að skapa vettvang fyrir félagsauðinn í borginni og hvet ég alla til að kynna sér málið. Virkar grasrótarhreyfingar eru gríðarlega mikilvægar í lýðræðissamfélagi og við verðum að ýta undir þá þróun. Við samþykktum líka að bjóða út framkvæmdir við endurhönnun á hluta Frakkastígs og gerð nýrra gatnamóta við Sæbraut. Um er að ræða gatnamótin við Sólfarið sem er býsna vinsæll áfangastaður. Þar er engin gangbraut þótt þar séu gatnamót skammt frá. Ég hitti Eddu Heiðrúnu Bachman leikkonu á eftirminnilegum fundi á heimili hennar skömmu áður en hún lést. Hættan af þessari fjölförnu gönguleið var eitt af því sem hún vildi að eitthvað yrði gert í. Ég hlakka til að sjá þetta verða að veruleika.

Að endingu vil ég nefna þá umræðu sem skapast hefur í kjölfar þess að Stefán Eiríksson borgarritari steig fram starfsfólki til varnar, en fjöldi starfsmanna hefur mátt þola árásir og óvægnar athugasemdir af hálfu nokkurra kjörinna fulltrúa á þessu kjörtímabili. Skilaboð Stefáns til starfsfólks borgarinnar voru einföld. Ef þið teljið á ykkur brotið, látið þá vita. Til að bregðast við þessari stöðu verða gefnar úr leiðbeiningar og skilgreindur ferill fyrir kvartanir af þessu tagi. Það er ekki hægt að una því að tugir starfsfólks beri vitni um vanlíðan og kvíða vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð, án þess að brugðist sé við. Ég hef því tekið heilshugar undir með borgarritara og lít á það sem brýnt verkefni að búa til gott starfsumhverfi á öllum starfsstöðum borgarinnar, líka þeim sem eru í hvað mestu návígi við pólitíkina, sem getur stundum verið flókið.

Fyrir helgina minni ég á að skráning í frístundaheimili fyrir næsta haust opnaði í morgun og innritun í leikskólana fyrir haustið er 20. mars nk. Svo má nefna að við opnuðum Stockfish kvikmyndahátíðina í gær í Bíó Paradís þar sem fullt af frábærum myndum er í boði.

Góða helgi!

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent í Hörpu

Íslensk kvikmyndagerð hefur aldrei verið eins öflug og einmitt núna. Þess vegna lögðum við ýmislegt á okkur til að fá hingað uppskeruhátíð evrópskrar kvikmyndagerðar þegar evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent í Reykjavík á næsta ári. Annað hvert ár fer hátíðin fram í Berlín en annað hvert ár fer hún fram í einhverri annarri evrópskri borg. Þetta er mikill heiður fyrir okkur og ótrúlega gaman að fá tækifæri til að halda þessa hátíð hér. RÚV, Kvikmyndamiðstöð, Reykjavíkurborg, Harpa, Meet in Reykjavík, Íslandsstofa og Menntamálaráðuneytið komu öll að undirbúningnum við þetta og þess vegna var tilfinningin frábær þegar okkur var tilkynnt um að hátíðin færi fram hér í lok næsta árs. Þetta verður frábært tækifæri fyrir okkur að lyfta íslenskri kvikmyndagerð, halda hliðarviðburði fyrir börn, fjölskyldur og allan almenning og koma á góðum tengslum okkar kvikmyndagerðarfólks við kollega í Evrópu. Hlakka mikið til.

Opið fyrir umsóknir um Torg í biðstöðu

Torg í biðstöðu er eitt af mínum uppáhaldsverkefnum þar sem við breytum, í samstarfi við ólíka hópa fólks borgarlandinu í tilraunaskyni. Markmiðið er að auðga mannlíf í borginni og stuðla að fjölbreyttri notkun almenningsrýma. Áhugasamir eru hvattir til að senda umsóknir með hugmynd að verkefnum í síðasta lagi sunnudaginn 17. mars 2019. Sérstök áhersla er núna á svæði utan miðborgarinnar þannig að við hvetjum áhugasama til að spekúlera í svæðum utan miðborgar sem mættu fá andlitslyftingu. Dæmi um vel heppnuð Torg í biðstöðu eru hér og allt um fresti og skilmála til að sækja um hér.

Áttu listaverk eftir Erró?

Listasafn Reykjavíkur auglýsir eftir fólki sem eiga klippimyndir eða málverk eftir Erró sem sýna Maó, fyrrverandi leiðtoga Kína. Bæði er óskað eftir upplýsingum um verkin í skráningarskyni en safnið er líka að skoða að fá einhver verk að láni fyrir sýningu sem til stendur að verði opnuð 1. maí nk. Myndirnar eru frá árunum 1972-1980 og sýna Maó og félaga hans í mismunandi borgum í heiminum, m.a. Reykjavík. Listasafn Reykjavíkur varðveitir um 4.000 listaverk eftir Erró en listamaðurinn hefur gefið borginni meira en 2.000 verk og er einsog margir vita einn af heiðursborgurum Reykjavíkur.

Nýlegar færslur