Dagur leikskólans, Persónuvernd og frítt inn á 53 söfn í kvöld! – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 8. febrúar 2019

Góð vika að baki í borginni. Á þriðjudaginn undirritaði ég verksamning við verktakafyrirtækið Munck um byggingu knatthúss ÍR í Mjódd. Húsið verður jafnframt með æfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir og fleira. Fjöldi ÍR-inga var viðstaddur og mikil gleði í lofti enda langþráður draumur að rætast. Sama dag héldum við fund í borgarstjórn þar sem við samþykktum tillögu að því að lækka umferðarhraða á kafla Hringbrautar niður í 40 km hraða á klukkustund. Þetta eru tímamót því tillagan var samþykkt einróma sem er fagnaðarefni. Á íbúafundi um málið sögðust lögreglustjóri og Vegagerðin sammála aðgerðinni, sem er mikilvægt því lækkun á hraða krefst samþykkis lögreglu. Á miðvikudagsmorgninum var haldinn stór fundur um nýju Menntastefnuna í Borgarleikhúsinu sem ég fékk að ávarpa. Fundurinn hófst á því að krakkarnir úr Árbæjarskóla sem unnu Skrekk í nóvember síðastliðnum sýndu atriðið sitt og ég viðurkenni að það var svolítið snúið að koma á svið beint á eftir þeim, glæsilegt! Á miðvikudaginn var Degi leikskólans líka fagnað og við fórum ásamt menntamálaráðherra í Brákarborg til að halda upp á daginn. Úrslit voru tilkynnt í ljóðasamkeppni leikskólanna og Haraldur Gíslason formaður Félags leikskólakennara og tónlistarmaður stýrði viðburðinum með glæsibrag. Takk fyrir frábæran Dag leikskólans.
Á Degi leikskólans brá þó svo við að það kviknaði í eldhúsi á leikskólanum Árborg. Starfsfólk leikskólans og slökkvilið brást hárrétt við í öllum aðgerðum sínum og öllum börnum var komið strax í öruggt skjól. Greiðlega tókst að slökkva eldinn. Borgarráð sameinaðist í bókun þar sem öllum sem komu að málum var þakkað kærlega. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hefur einnig sent út póst með áminningu um rétt viðbrögð til allra leikskóla borgarinnar af sama tilefni.

Það var ýmislegt um að vera í borgarráði. Við skipuðum meðal annars samninganefnd við ríkið um þær lóðir sem enn eru í eigu ríkisins en væru vel fallnar til uppbyggingar hagkvæms húsnæðis. Við kynntum spennandi niðurstöðu hugmyndaleitar vegna afnota af Arnarbakka og Völvufells sem við festum kaup á í vor. Gaman var að sjá að fjölmargir hafa falast eftir að nota húsnæðið. Á meðan við erum að vinna að skipulagsbreytingum á svæðinu viljum við gjarnan að líf sé í þessum gömlu verslunarkjörnum en niðurstöður þessarar leitar eru hér. Stærsta málið í borgarráði voru þó skipulagsbreytingar sem við erum að ráðast í á næstunni. Þar erum við að einfalda, skýra og skerpa en helstu breytingarnar eru þær að við leggjum niður þrjár skrifstofur og stofnum þrjú svið, við eflum starf regluvarðar og eflum innkauparáð. Allt um stjórnkerfisbreytingarnar hér.

Innanríkisráðuneytið, Samband sveitarfélaga og einstök sveitarfélög hafa allt frá sveitarstjórnarkosningum 2014 komið að umræðu og verkefnum til að auka kosningaþátttöku, með sérstakri áherslu á ungt fólk. Til þessa hefur verið efnt í ljósi dvínandi kosningaþátttöku sem er því miður staðreynd á Íslandi, ekki síður en í öðrum löndum. Í dag hafa birst fréttir af því að Persónuvernd telji Reykjavíkurborg, Þjóðskrá og Háskóla Íslands ekki hafa farið að lögum um persónuvernd við framkvæmd eins þeirra verkefna sem efnt var til í því skyni að auka kosningaþátttöku í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sl vor. Verkefnið sem um ræðir var eitt af þeim sem borgarráð sameinaðist um að efna til með samþykkt tillagna sem hópur sérfræðinga hafði unnið. Tillögunum var öllum ætlað að stuðla að aukinni kosningaþátttöku, á einn eða annan hátt. Niðurstaða Persónuverndar lítur meðal annars að rannsóknarhluta verkefnisins en fræðimenn við Háskóla Íslands lögðu upp rannsókn í samvinnu við borgina til að kanna hvort hvatning til að kjósa hefði áhrif á ungt fólk, og hvort mismunandi orðuð hvatning hefði mismikil áhrif. Fyrir liggur að rannsóknin hafði fengið samþykki Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands. Reykjavíkurborg mun í kjölfar niðurstöðu Persónuverndar fara yfir úrskurðinn með samstarfsaðilum í verkefninu og draga lærdóm af. Í þeirri yfirferð þarf m.a. að skoða hvernig framkvæmd okkar er frábrugðin framkvæmd sambærilegra verkefna á Norðurlöndunum, sem m.a. var horft til sem fyrirmyndar í verkefninu.

Ég vil svo að síðustu minna á dásamlega dagskrá á Vetrarhátíð sem hófst í gær. Og sjálfa safnanóttina sem er í nótt, allskonar skemmtilegt á seyði þar, hvet ykkur til að kíkja, meira um það fyrir neðan.

Góða helgi!

Spennandi endurhönnun Tryggvagötu 

Það var gaman að sjá að skipulags- og samgönguráð samþykkti að fara í endurhönnun á Tryggvagötu á dögunum. Undir Tryggvagötu, Austurhöfn og Hafnartorgi er nú að opna stærsti bílakjallari landsins. Það er því gott tækifæri til að búa til betri svæði til útivistar þar sem helst er að finna sól og skjól í miðborginni, en suðurhlið Tollhúsins snýr eins og sólríkasti hluti Austurvallar og er því sérstaklega spennandi að þessu leyti. Ég er mjög spenntur að sjá útfærslunar á því hvernig borgarrýmið mun líta út við Tollhúsið þannig að magnað mósaíkverk Gerðar Helgadóttur fái að njóta sín enn betur. Spái því að Tryggvagata geti orðið ein fallegasta gata borgarinnar.

ÍR svæðið komið á fullt

Verksamningurinn ÍR-húsið sem undirritaður var á þriðjudaginn gerir ráð fyrir að fjölnota íþróttahúsið verði rúmir 4.300 fermetrar að stærð og hliðarbygging þess tæpir 1.300 fermetrar. Heildarkostnaður við þessi mannvirki er áætlaður rúmur milljarður króna. Íþróttahúsið sjálft samanstendur af fjölnota íþróttasal, sem er á stærð við hálfan fótboltavöll auk æfingasvæðis fyrir frjálsar íþróttir í vesturenda hússins. Tveggja hæða hliðarbygging verður meðfram eystri langhlið salarins en þar verða búningsklefar, lyftingasalur, salerni, aðstaða fyrir áhorfendur og lyfta. Íþróttahúsið á að verða fullklárað og rekstrarhæft í ársbyrjun 2020 þannig að það er ekki seinna vænna. Það er samt meira um að vera á ÍR svæðinu þar sem við erum að gera nýjan frjálsíþróttavöll ásamt þjónustuhúsi, sem nú þegar er uppsteypt. Frjálsíþróttavöllinn verður tekinn í notkun núna í júlí . Þá gerum við ráð fyrir byggingu íþróttahúss með parketgólfi með áhorfendasætum, en ekki hefur verið tímasett hvenær þær framkvæmdir hefjast. Það er því nóg um að vera á ÍR svæðinu í Suður-Mjódd og hlakka ég mikið til að fylgjast með framvindu og þróun verkefnisins.

Safnanótt – frítt á 53 söfn

Það verður frítt inn á svo til öll söfnin á höfuðborgarsvæðinu í kvöld, eða alls 53 talsins. Ég reikna ekki með að maður nái að fara á öll 53 söfnin en það væri gaman að reyna! Það helsta sem er um að vera á söfnum borgarinnar í kvöld er eftirfarandi:  Borgarskjalasafni verður boðið upp á ferðir um Dal dauðans, Á Ljósmyndasafninu verður boðið upp á ljósmyndasýningu og DJ Katla mun sjá um tónlist. Einnig verða getraunir og föndur í boði fyrir gesti og gangandi. Á Árbæjarsafni verður boðið upp á baðstofustemningu þar sem spilað verður á langspil, kveðist á og sagðar sögur. Draugaganga verður fyrir börn og fullorðna og spákona mætir á svæðið. Í Sjóminjasafninu verður litli sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, varðskipið Óðinn verður opið og gestum boðið að prufa sýndarveruleika. Listasafn Reykjavíkur býður upp á örleiðsagnir um sýningar safnsins, heimsókn í listaverkageymslur og „silent diskó“. Í Hólavallakirkjugarði verður boðið upp á ljóðalestur, vígalegir víkingar verða í Sögusafninu og kynnast má náttúru Íslands í Perlunni. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu. Frítt verður í sérstakan Safnanæturstrætó á milli allra safnanna. Hvet ykkur til að kíkja.

Nýlegar færslur