Reykvíkingum fjölgar meira, Brekkusprettur í kvöld, heita vatnið, Vetrarhátíð og pálmatré – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 2. febrúar 2019

Skemmtileg vika í borginni að baki. Reykjavík International Games lýkur um helgina i Laugardalnum. Þar hafa íþróttamenn og konur att kappi undanfarna viku í allskonar íþróttagreinum. Vill nota tækifærið og þakka skipuleggjendum fyrir frábært mót.

Það hefur verið kalt í veðri undanfarna daga og það hefur reynt á innviðina hér á höfuðborgarsvæðinu. Veitur hafa hvatt íbúa til að spara heita vatnið og munu í samráði við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu meta það um helgina hvort þurfi að draga úr heitavatnsþjónustu við stórnotendur. Við erum sjaldan minnt á hvað við eigum mikla auðlind í heita vatninu sem við tökum oftast sem sjálfsögðum og ódýrum hluta af hversdeginum. Kyndikostnaður víðast hvar erlendis er margfaldur á við það sem við búum við. Um leið er ljóst að Veitur hafa þurft að flýta framkvæmdum við nýja varmastöð sem átti ekki að fara til framkvæmda fyrr en árið 2023. Ástæðan er það mikla uppbyggingarskeið sem stendur yfir í borginni, og að einhverju leyti á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þótt met í heitavatnsnotkun hafi verið slegið síðustu daga er sem sagt búist við ennþá meira vatni inn á kerfið til að auka afhendingaröryggi næsta haust.

Eitt þeirra mála sem bar hæst þessa viku var hin breiða og ánægjulega samstaða sem skapast hefur um að hrinda framkvæmdum við Borgarlínu af stað. Umræður um málið voru á þingi og samgönguráðherra tók af skarið þar og í Kastljósi um kvöldið að Borgarlína yrði fjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, hönnun hæfist strax og framkvæmdir væru á fullt á næsta ári og þar næsta í samræmi við fyrirliggjandi tillögur. Þetta er mikið fagnaðarefni og sannarlega tímamótayfirlýsing. Sömu áherslur mátti svo sjá í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vegna samgönguáætlunar og það er mikilvægt að bæði framkvæmda- og löggjafavaldioð gangi í takt við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hvað þetta varðar.

En líklega var það þó listaverk í Vogabyggð sem stal senunni. Í vikunni kynnti dómnefnd þá niðurstöðu að verk Karin Sander, Pálmar, hafi orðið hlutskarpast í alþjóðlegri samkeppni um útilistaverk í hinu nýja hverfi Vogabyggð. Samþykkt var einróma í borgarráði í mars í fyrra að fara í samkeppnina og að sú upphæð sem rynni til kaupa á einu eða fleiri verkum yrði allt að 150 milljónir króna. Kostnaðurinn er greiddur af tekjum af uppbyggingunni eins og aðrir innviðir í hverfinu sem alls munu kosta um 6 milljarða króna. Vogabyggð er eitt fyrsta hverfið þar sem hugað er að list í almenningsrými strax frá upphafi. Fjölmargir hafa síðustu daga trjáð sig um verkið sem varð hlutskapast og ljóst að skoðanir eru skiptar. Næsta skref í málinu er að fá álit á raunhæfni vinningstillögunnar sem ýmsir hafa dregið í efa og verður tillaga þess efnis tekin fyrir í borgarstjórn á þriðudaginn kemur. Ég hvet reyndar alla til að skoða tillögurnar sem þátt tóku í samkeppninni en þær verða til sýnis á Kjarvalsstöðum til 6. febrúar nk.

Að venju var borgarráðsfundur í gær, fimmtudag. Þar samþykktum við deiliskipulag fyrir brú yfir Fossvoginn og fleiri ágæt mál. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á að hverfisskipulagið fyrir Árbæ sem ég fjallaði nokkuð ítarlega um í síðasta pósti verður til sýnis í borgarbókasafninu í Árbæ frá og með næsta sunnudegi. Þar er hægt að skoða tillöguna og koma með athugasemdir við hana ef einhverjar eru. Sérfræðingar okkar verða á staðnum og geta svarað spurningum. Þá minni ég á að velferðarsvið er að auglýsa eftir tilnefningum til hvatningaverðlauna velferðarráðs. Markmið hvatningarverðlaunanna er að örva og vekja athygli á því mannbætandi og gróskumikla starfi sem fer fram í velferðarþjónustu borgarinnar.  Verðlaunin eiga að vera viðurkenning til verðlaunahafa og staðfesting þess að viðkomandi sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir. Verðlaunin verða veitt í loks Þekkingardags velferðarsviðs sem fer fram 12. febrúar næstkomandi. Allt um málið hér.

Rétt í lokin vil ég minna á að samráð um útfærslu á göngugötum í miðborginni heldur áfram um helgina en þar verða sérfræðingar okkar í borgarhönnunarteyminu á vaktinni milli kl. 12.00-17.30 bæði á laugardag og sunnudag. Hvet ykkur til að líta, kynna ykkur útfærslunar og koma með uppbyggilegar athugsemdir. Þá byrjar Vetrarhátíð í næstu viku. Meira um hana fyrir neðan.

Góða helgi!

Borgarbúum heldur áfram að fjölga

Það er stundum gaman að fylgjast með tölum Hagstofunnar um ýmislegt. Nýjar mannfjöldatölur fyrir árið 2018 voru að detta inn a vefinn hjá þeim en þar kemur fram að íbúum Reykjavíkur hefur fjölgað um 2.800 milli ára. Það er mun meiri fjölgun en á venjulegu ári sem hefur verið í kringum 0,9%. Þessi fjölgun er um 2,2%, annað árið í röð, sem er mjög gleðilegt. Það er mikilvægt að halda til haga staðreyndum í erli dagsins af því að stutta sagan er að okkur er að fjölga og við erum að byggja borg. Fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum er sömuleiðis að fjölga, borgin er að stækka hún er að þéttast og hún er að verða meiri borg . Og það borg í blóma.

Fossvogsbrúin samþykkt

Við höfum átt í góðu samstarfi við Kópavog og Vegagerðina um undirbúning að lagningu brúar yfir Fossvoginn. Brúin verður fyrir gangandi, hjólandi og Borgarlínu og strætó. Er mjög spenntur fyrir þessu verkefni enda búið að vera lengi í bígerð. Brúin mun vera hluti af fyrsta áfanga Borgarlínu. Fossvogsbrúin hefur alla burði til að vera mikil samgöngubót fyrir fjölbreytta ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Nú er sem sagt búið að samþykkja deiliskipulagið. Næsta skref er að klára samninga um verkefnið enda skiptist kostnaður milli ríkis, borgar og Kópavogsbæjar.

Brekkusprettur í kvöld á Skólavörðustíg

Hjólreiðar hafa aldrei verið vinsælli í Reykjavík og mér finnst eins og hjólreiðakeppnir af öllum sortum séu farnar að gera sig gildandi í borgarlífinu – sem er frábært. Ein slík keppni er Brekkusprettur sem er örstutt hjólakeppni þar sem keppendur eru ræstir neðst á Skólavörðustíg og hjólað upp að Bergstaðarstræti á 70 metra langri braut. Val keppenda á reiðhjóli er frjálst en keppnin er hluti af off venue dagskrá Reykjavíkurleikanna. Það myndast jafnan frábær stemmning í götunni á meðan keppnin fer fram og hvet ég ykkur til að koma og styðja hjólreiðafólkið okkar dyggilega. Keppnin hefst neðst á Skólavörðustíg kl. 19.00 í kvöld.

Vetrarhátíð framundan – Dalur dauðans, miðbæjarflot og Ljósaganga

Vetrarhátíð hefur alltaf yljað okkur í mesta kuldanum og nú veitir svo sannarlega ekki af. Hátíðin er nú haldinn í 18. sinn. Vetrarhátíð verður sett við Hallgrímskirkju þann 7. febrúar nk. klukkan 19.45. Opnunaratriðið er ljósainnsetningin Passage eftir listamannahópinn Nocturnal frá Nýja Sjálandi sem er unnin í samvinnu viðList í ljósi. Hef heyrt að maður megi ekki missa af því. Verkinu verður varpað á Hallgrímskirkjuturn þar sem unnið er með íslenska arfleið og mun verkið vekja turninn til lífsins með mynd og hljóði.  Verkið verður til sýnis öll kvöld á hátíðinni frá kl. 19.00-23.00. Dagskrá og tímasetningar á Vetarhátíð má nálgast hér hér.

Nýlegar færslur