Frístundakortið vekur athygli, hverfisskipulag samþykkt og miklar framkvæmdir í Reykjavík – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 25. janúar 2019

Gleðilegan bóndadag! Sannarlega góð vika að baki i borginni. Handboltalandsliðið okkar er ungt og efnilegt og við getum verið stolt af frammistöðu strákana okkar á HM í handbolta. Liðið kemur heim reynslunni ríkari eftir leikina á HM þar sem við komumst í milliriðil. Bíð spenntur eftir næsta stórmóti.

Að öðru. Áhugi erlendra fjölmiðla á forvarnarárangri borgarinnar og stuðningi við þátttöku í listum og íþróttum er alltaf að aukast. Rannsóknir sýna nefnilega að frístundakortið okkar er ekki bara hvetjandi fyrir krakka sem vilja taka þátt í frístundum af öllu tagi, heldur er þetta líka jöfnunartæki. Nýja norska ríkisstjórnin vísaði í fordæmið í stjórnarsáttmála sínum og vill fara sömu leið. Við eigum að vera stolt af því að aðrar borgir og lönd eru farin að taka þetta upp eftir okkur.

Við erum að hefja frekar umfangsmikið samráð um útfærsluna á því hvernig Laugavegur verður útfærð sem göngugata til framtíðar. Það verða haldnir fundir og samtalið mun líka eiga sér stað á vefnum. Í næstu viku verða sérfræðingar okkar af samgönguskrifstofu á jarðhæðinni í Ráðhúsinu til að hlusta á almenning, veita innsýn í það sem framundan er og taka við ábendingum frá öllum. Laugavegur er verslunargatan okkar. Hann hefur breyst og þróast í gegnum árin. Upphaf þessara vinnu var sérstaklega ánægjulegt en nær einróma samstaða var um málið í borgarstjórn síðastliðið haust.

Við héldum borgarráðsfund í vikunni. Helstu fréttir þaðan er að við samþykktum að auglýsa Hverfisskipulag fyrir Árbæ. Þetta er fyrsta hverfisskipulagið sem við samþykkjum og því sögulegur áfangi. Það sem hverfisskipulagið færir okkur er meðal annars einföldun: að íbúar fá heimildir til að breyta húseignum sínum án þess að borgin þurfi sérstaklega að leyfa það eins og hingað til hefur þurft. Það má breyta bílskúrnum í íbúð, setja kvist á húsið þegar það á við eða bæta lyftuhúsi við fjölbýlishús ef við á. Meira um hverfisskipulagið fyrir neðan.  Fjörutíu tillögur átakshóps í húsnæðismálum voru kynntar í borgarráði. Allar meginniðurstöður hópsins eru í góðu samræmi við stefnu borgarinnar og segja má að verið sé að hvetja til þess að ríkið bæti í fjármögnun og önnur sveitarfélög taki á húsnæðismálunum af sama krafti og borgin hvað varðar uppbyggingu leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði í samvinnu við óhagnarðardrifin leigufélög. Borgarráð fagnaði tillögunum og samþykkti að setja þær sem snúa að borginni strax í farveg. Meira um það fyrir neðan.

Þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri fór hún í samstarf við Samtök iðnaðarins um árlegan fund, svokallað útboðsþing, þar sem opinberir aðilar sýndu á spilin í fyrirhuguðum framkvæmdum á komandi ári. Tilgangurinn var að veita yfirsýn og auka fyrirsjáanleika bæði útboðsaðila og verktaka. Útboðsþing var einmitt haldið í gær og kynnti ég framkvæmdir á vegum borgarinnar upp á um 20 milljarða. Fyrirtæki borgarinnar kynntu líka sínar áætlanir, ásamt fulltrúum ríksins. Meira um útboðsþing fyrir neðan.

Góða helgi!

Mikilvægar tillögur átakshóps í húsnæðismálum

Átakshópur í húsnæðismálum skilaði mörgum mjög góðum tillögum sem mikilvægt er að fjármagna og framkvæma. Tillögurnar eru innlegg í stöðu kjaraviðræðna. Þung áhersla er lögð á fjölgun leiguíbúða sem byggja á stofnframlögum og lagt til að vextir á lánum til þeirra verði líka lækkaðir. Það væri mjög mikilvægt og myndi lækka leiguna. Reykjavík hefur allt frá upphafi laga um almennar íbúðir lagt áherslu á gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og önnur uppbyggingarfélög sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þetta sést best á því að um 90% af öllum slíkum íbúðum sem samþykkt hefur verið að byggja eru innan Reykjavíkur. Ég vil, eins og átakshópurinn, undirstrika að mikilvægt er að önnur sveitarfélög taki þátt í þessari uppbyggingu almennra íbúða. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir uppbyggingu á ríkislóðum sem er jákvætt og hvetja til þess að framkvæmdum við Borgarlínu verði hraðað. Það er líka mjög mikilvægt. Öflugar almenningssamgöngur eru nefnilega kjaramál. Loks eru tillögur um einföldun skipulags- og byggingarmála, sem meðal ananars byggja á tillögum sérfræðinga borgarinnar. Borgarráð beið ekki boðanna og undirstrikaði vilja sinn til að fara hratt og vel í þá hluti eins og aðra þætti sem snúa að borginni í tillögunum. Vonast ég til að ríki og aðilar vinnumarkaðarins tryggi markvissa framvindu mála á næstunni.

Reykjavík fyrirferðamikil í fjárfestingu á Útboðsþingi

Vel heppnað Útboðsþing fór fram í gær. Þar fór ég yfir um 20 milljarða króna fjárfestingu borgarinnar í innviðum, fasteigum, stígum, götum og öðrum eignum. Stærst er fjárfestingin í íþróttamannvirkjum að þessu sinni en við erum með sérstaka áherslu á austurborgina með sundlaug í Úlfarsárdal og knatthús í Breiðholti sem stærstu verkefnin. Við ætlum að reisa nýja hverfisbækistöð í Örfirisey, klára viðbyggingu við Borgarbókasafnið og þannig má áfram telja, Í velferðinni erum við að fjárfesta í smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs og hjúkrunarheimili við Slettuveg er að rísa. Þá erum við að opna nýjar leikskóladeildir, taka í gegn skólalóðir og svo setjum við 450 mkr í lagningu hjólastíga. Á þessu ári verður byrjað að hanna Borgarlínu og meira en 1200 mkr verður sett í að malbika götur. Fjárfesting borgarinnar í innviðum af ýmsu tagi hefur aldrei verið umfangsmeiri.

Tímamót í skipualgsmálum – hverfisskipulag í auglýsingu

Vinna við Hverfisskipulag hófst fyrir margt löngu. Markmiðið var alltaf mjög skýrt. Skapa sjalfbær hverfi og styrkja þau að allri gerð og einfalda hlutina: gefa íbúum tækifæri til að gera smávægilegar og stórvægilegar breytingar á sínum eignum með einfaldari hætti en nú tíðkast. Í hverfisskipulagi Árbæjar erum við í raun að veita heimildir í þessum borgarhluta til að fjölga íbúðum um 1.800. Við erum að setja almennar leikreglur í mismunandi hverfum innan Árbæjarins og erum að veita byggingarheimildir og heimildir til breytinga sem ekki þarfnast frekara samþykkis í skipulagi. Hverfisskipulagið sjálft hefur farið í afar umfangsmikinn samráðsferil sem hófst í grunnskólum borgarinnar. Þar fengu krakkarnir í hverfinu að smíða líkan af hverfinu sínu og setja inn allskonar hugmyndir sem þeim fannst vanta í hverfið sitt. Fullorðna fólkið fékk svo tækifæri til að koma með nýjar hugmyndir inn í ferlið á íbúafundum en þetta samráð er af breskri fyrirmynd og heitiri Planning for Real. Það var afar ánægjulegt að þetta hefur unnist jafnt og þétt á undanförnum árum og í borgarráði í gær var samþykkt samhljóða að auglýsa hverfisskipulagið fyrir Árbæinn. Er mjög spenntur fyrir næst skrefum í málinu og hef heyrt útundan mér að íbúar í öðrum hverfum borgarinnar bíði í ofvæni eftir sínu eigin hverfisskipulagi. Við stefnum því að því að ljúka hverfisskipulagi fyrir alla borgarhluta á næstu fimm árum.

 

Nýlegar færslur