102 Reykjavík, stærsta byggingarár í sögu Reykjavíkur og lægstu leikskólagjöldin! – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

 í flokknum: Fréttir

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar 18. janúar 2019

anúar kominn vel af stað og sól farin að hækka á lofti. Það munar um hverja mínútu af sólarljósi í svartasta skammdeginu. Vikan byrjaði annars með hryllilegri árás á borgarstjóra Gdansk sem lést af sárum sínum. Pawel Adamowicz hafði verið borgarstjóri í þessari fallegu borg frá árinu 1998. Hann var frjálslyndur borgarstjóri og vinsæll. Hann studdi réttindabaráttu hinsegin fólks í Póllandi en þar í landi hafa íhaldssamir þjóðernissinnar staðið í vegi fyrir umbótum. Þá veitti Adamowicz flóttamönnum skjól í borginni þvert á vilja ríkisstjórnar Póllands. Ég minntist borgarstjóra Gdansk í upphafi borgarstjóranrfundar á þriðjudag og risu borgarfulltrúar úr sæti auk þess sem sendar voru samúðarkveðjur til borgarinnar og pólska sendiráðsins á Íslandi.

Við afhentum Fjöruverðlaunin á miðvikudaginn en það eru bókmenntaverðlaun kvenna. Eftir jólabókaflóðið kemur fjara og þar leynast oft miklar gersemar. Borgarstjóraembættið er verndari verðlaunanna og þykir mér sérstaklega vænt um að fá að afhenta þessi verðlaun í janúar á hverju ári. Í flokki fagurbókmennta gékk Guðrún Eva Mínervudóttir verðlaun fyrir bókina Ástin, Texas. Í flokki fræðibóka var það Þjáningarfrelsið eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur sem hreppti verðlaunin og í barna- og unglingaflokki var það okkar eina sanna Fíasól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem hlaut þau verðlaun. Óska ég verðlaunahöfum öllum innilega til hamingju og hvet alla til að kynna sér þessar gæðabækur.

Við héldum borgarráðsfund í vikunni. Samþykktum þar ýmis góð mál. Borgarráð samþykkti meðal annars að leggja til að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102, það er að segja svæðið sunnan Hringbrautar. Málið var sent til umsagnar og breytingin virðist fara nokkuð vel í flesta og eru margir mjög spenntir fyrir breytingunni. Málið fer nú inn á borð póstnúmeranefndar sem hefur síðasta orðið í þessu efni.

Við samþykktum einnig að auglýsa deiliskipulag við Héðinsgötu þar sem við ætlum að koma fyrir smáhýsum en það er hluti af áætlun um að finna lóðir fyrir allt að 25 smáhýsi í borgarlandinu. Þessi lóð rýmir 5 smáhýsi. Um mikilvægt úrræði fyrir notendur þjónustu velferðarsviðs er að ræða.

Ein ánægjulegasta frétt vikunnar var án efa sú að Reykjavík er með lægstu leikskólagjöldin. Munar barnafólk reyndar töluvert mikið hvar það býr. Og til viðbótar var ég að fá glóðvolgar tölur frá byggingarfulltrúa um íbúðir sem var hafin smíði á á síðasta ári. Og fyrir liggur að árið 2018 var algert metár í uppbyggingu i borginni. Meira um það fyrir neðan.

Góða helgi!

Árið 2018 var stærsta byggingarár í sögu Reykjavíkur

Við fáum reglulega yfirlit frá byggingarfulltrúa um fjölda þeirra íbúða sem hafin er smíði á. Í morgun fékk ég sent til mín yfirlitið en þar kemur fram að árið 2018 var stærsta byggingarár í sögu Reykjavíkur. Undanfarin þrjú ár, frá 2015-2017 hafa um 900 íbúðir farið í byggingu á hverju ári. Það er mesti fjöldi íbúða þrjú ár í röð. Meðaltalið frá 1972 er um 650 íbúðir á ári en árið 2018 var sannarlega okkar stærsta ár. Það var stærra en þegar Breiðholtsuppbyggingin stóð sem hæst en árið 1973 var stærsta uppbyggingarárið, þar til nú. Á síðasta ári var hafin smíði á alls 1.417 íbúðum. Þá er ótalið allt það atvinnuhúsnæið sem er í uppbyggingu.

Lægstu leikskólagjöldin í Reykjavík

Verðlagseftirlit ASÍ birti í vikunni úttekt sína á leikskólagjöldum meðal 16 stærstu sveitarfélaga landsins..Þar kemur í ljós að Reykjavík er með lægstu gjöldin í öllum flokkum. Gjaldið á stakt barn er rúmur 25.000 á mánuði, gjaldið fyrir forgangshópa er 16.700, þá eru systkinaafslættir ríflegastir í Reykjavík. Þetta skiptir máli því öllum könnunum ber saman um það að barnafólk er sá hópur sem á erfiðast með að láta enda ná saman. Lægstu gjöldin er árangur sem við erum stolt af en lækkun leikskólagjalda hefur verið hluti af áherslum á að bæta kjör fjölskyldna í borginni undanfarin ár.

Náum áttum – jákvæð samskipti með börnum

Vill vekja athygli á morgunverðarfundi sem fram fer næsta miðvikudag milli kl. 8.15-10.00 á Grand Hótel. Fundurinn fjallar um jákvæð samskipti í starfi með börnum. Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, talar um hvernig eigi að kenna börnum um gildin í lífinu, Björg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Erindis, fjallar um áskoranir í samskiptum í skólasamfélaginu. Þá fjallar Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, um forvarnir frá fyrstu tíð eða samskipti og samfélag ungra barna. Fundarstjóri verður Vanda Sigurgeirsdóttir. Fundurinn er öllum opinn en skráning fer fram á heimasíðunni naumattum.is.

 

Nýlegar færslur