Rosalegur leikur, fleiri íbúðir og hægari umferð um Hringbraut – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar 11. janúar 2019

Það var hrikalega svekkjandi að tapa fyrir gríðarsterku liði Króata í fyrsta leik strákanna okkar á heimsmeistaramótinu í handbolta rétt í þessu. Ég vil hins vegar hrósa liðinu fyrir góðan leik og mikla baráttu. Hef fulla trú á því að framhaldið á mótinu verði spennandi. Og þjóðin stendur að sjálfsögðu þétt að baki strákunum og Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara.

Nýtt ár er gengið i garð og allt komið á fullt hjá borginni. Reykjavíkurborg sinnir allskonar praktískum úrlausnarefnum um jól og áramótin. Það sem er ekki í fréttum – sem er nú reyndar flest – er það sem gengur vel. Sorphirða hefur gengið afar vel og eins hreinsun borgarlandsins eftir hátíðarnar. Ég vil sérstaklega nota tækifærið til að þakka þeim fjölmörgu sem hafa hreinsað í sínu nærumhverfi eftir flugeldaveisluna um áramót – og hvetja fólk til dáða ef ennþá er eitthvað eftir í því efni.

Annars er það helst í borgarfréttum að við vorum að skrifa undir tímamótaviljayfirlýsingu við Reiti um uppbyggingu á lóðinni við Orkuhúsið svokallaða við Suðurlandsbraut. Þetta er lóð sem stendur við Suðurlandsbraut og Ármúla og gæti rúmað um 400-500 íbúðir. Meira um það fyrir neðan. Við lögðum fram allskonar mál í borgarráði í gær. Við settum búsetuúrræði fyrir konur í fíknivanda sem eiga jafnframt við geðsjúkdóma að stríða í forgang. Við fórum aftur yfir  ábendingar, athugasemdir og önnur atriði úr skýrslu Innri endurskoðunar á framkvæmdum við Nauthólsveg 100. Næsta skref er að vinna að nauðsynlegum úrbótum til að tryggja að frávik sem þessi komi ekki fyrir aftur. Meira um það fyrir neðan.

Það var meira um að vera í borgarráði. Við samþykktum að auglýsa skipulag við Stekkjarbakka, samþykktum reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík, samþykktum að breyta skipulagi í Kvosinni til þess að við getum gert gömlu steinbryggjuna sýnilega þegar unnið verður að lokafrágangi Hafnartorgs. Þá fengum við kynningu á styrkjum sem ÍTR er að úthluta á þessu ári, staðfestum reglur sem skóla- og frístundaráð vísaði til okkar um heimild sjálfstætt rekinna leikskóla til að opna ungbarnadeildir. Við samþykktum líka áframhaldandi samstarf við skátana á Úlfljótsvatni og loks fengum við styrk til frá Evrópusambandinu um uppsetningu þráðlauss nets í borgarlandinu.

Góða helgi!

Nauthólsvegur 100 – Umbætur framundan

Við Þórdís Lóa formaður borgarráðs lögðum fram í borgarráði í gær yfirlit yfir þær ábendingar, athugasemdir og önnur atriði úr skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100, sem kalla á viðbrögð borgarráðs og stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Í yfirlitinu er dreginn fram kjarninn í skýrslu innri endurskoðunar og verður framhaldið unnið jafnt og þétt áfram. Umbótaferlið er með öðrum orðum hafið.
Nýjar íbúðir við Suðurlandsbraut
Suðurlandsbrautin hefur verið skilgreind sem hryggjarstykkið í samgöngu- og uppbyggingarási sem nær frá Hlemmi að Ártúnshöfða í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Það þýðir að frá Hlemmi og upp að Ártúnshöfða mun eiga sér stað mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis meðfram fyrsta áfanga Borgarlinu. Í tengslum við þessa framtíðarsýn undirrituðum við í dag viljayfirlýsingu við Reiti um byggingu 400-500 íbúða á Orkuhússreitnum við Suðurlandsbraut og Ármúla. Forsenda uppbyggingarinnar er að á reitnum verði Borgarlínustöð. Þetta er stór og mikilvægur uppbyggingarreitur í borginni þar sem samstaða er um milli aðila að stefna að fjölbreyttri, spennandi og blandaðri byggð á lóðinni. Þetta eru því mikilvæg tímamót og verkefni sem vonandi mun gefa tóninn á svæðinu til framtíðar.
Hægari umferð um Hringbraut
Fyrir nokkrum áratugum síðan var það hluti af fréttum ársins börn létust í umferðarslysum í Reykjavík. Með því að lækka hraða í íbúagötum, þrengja götur, fjölga hraðahindrunum, bæta lýsingu og merkingar, eru banaslys af þessu tagi nánast úr sögunni. Í vikunni vorum við þó óþyrmilega minnt á það að stundum getur litlu munað, þegar keyrt var á barn á Hringbraut við Vesturbæjarskóla. Borgin brást við með því að fjármagna gangbrautarvörslu en ljóst er að vinna þarf að framtíðarlausn. Allar rannsóknir sýna að hraðalækkun er sú aðgerð sem mestu máli skiptir til að fækka slysum. Hringbrautin er í þéttri byggð og er hraði þar of mikill miðað við aðstæður og nútímaviðhorf. Það var niðurstaða skýrslu á vegum borgarinnar sem kom út árið 2017 um hraðaminnkandi aðgerðir vestan Kringlumýrarbrautar að farsælast væri að lækka hámarkshraða á þessum kafla Hringbrautar. Nú hefur verið boðað til samráðsfundar þar sem Vegagerðinni sem er veghaldari Hringbrautar er boðið til fundar ásamt Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu auk íbúasamtaka í Vesturbænum. Vonandi tekst að ná samstöðu um niðurstöðu þar sem fólk og börn og lífsgæði íbúa við Hringbraut er sett í forgang. Hraðbrautir eiga ekki heima í þéttum íbúðahverfum.
Nýlegar færslur