Orkuveitan, risaköttur á Lækjartorgi, menntamál og Snallræði! – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 23. nóvember 2018

Góð vika að baki og svei mér þá ef það styttist ekki í jólin. Já, ég get trúað ykkur fyrir því að jólavættirnar fara senn að setja svip sinn á miðborgina. Það var gaman að sjá Þráinn Hafsteinsson starfsmann þjónustumiðstöðvar Breiðholts í fréttum í gær en starfsfólk borgarinnar, íbúar og lögregla ætla að taka höndum saman um viðbrögð í kjölfar frétta af áberandi vímuefnaneyslu og lélegri umgengni í kringum Arnarbakka. Í því sambandi má minna á að Reykjavíkurborg keypti fasteignirnar þar og í Völvufelli í sumar og hyggst borgin gera alls herjar andlitslyftingu á þessum gömlu hverfiskjörnum, sem mega sannarlega muna sinn fífil fegurri. Borgin færi fyrstu rýmin afhent um áramót og verður fljótlega auglýst eftir samfélagstengdum verkefnum sem vilja fá þar inni, til skemmri tíma, á meðan unnið er að hugmyndum og endurskipulagi uppbyggingarinnar. Við vonumst eftir frábæru samstarfi við íbúa og alla sem láta sig borgina varða. Því saman sköpum við betra samfélag.

Menntamálin hafa verið afar fyrirferðamikil í þessari viku. Við héldum vel heppnaðan blaðamannafund á mánudaginn um nýja menntastefnu sem ég hef stundum minnst á á þessum vettvangi. Það eru mikilvæg og merkileg tímamót sem ástæða er til að fagna. Ekki var síður ánægjulegt að samþykktar voru tillögu um hvernig við brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hvoru tveggja var samþykkt i borgarstjórn nær einróma. Leikskólar í Reykjavík eru meðal þeirra allra bestu sem finnast og starfsfólkið þar vinnur mikilvægt og gott starf á hverjum degi. Meira um Brúum bilið og Menntastefnu hér fyrir neðan.

Skýrsla Innri endurskoðunar á málefnum OR var líka kynnt í upphafi vikunnar. Úttektin er yfirgripsmikil og vönduð og niðurstaða skýr. Vil nota tækifærið og þakka Innri endurskoðun og þeim utanaðkomandi sérfræðingu sem hún kallaði til fyrir vönduð og góð vinnubrögð í þessari úttekt. Þá vil ég þakka stjórn fyrirtækisins fyrir að halda vel og af yfirvegun á málinu og síðast en ekki síst settum forstjóra, Helgu Jónsdóttur, fyrir að stíga inn í erfitt verkefni með stuttum fyrirvara. Næstu skref í málinu er að forstjóra er falið að fara yfir niðurstöðuna og þær ábendingar sem fram koma, og leggja fram tillögur á næsta stjórnarfundi OR. Eins og í ýmsum öðrum málum sem verið hafa til umfjöllunar undanfarið einkenndist umræðan um OR í upphafi oft af stóryrðum og fullyrðingum sem ekki hefur reynst innistæða fyrir. Vonandi verður dreginn lærdómur af því, ekki síður en öðrum niðurstöðum Orkuveitumálsins. Ég vil lýsa þeirri von minni að nú skapist betri friður um Orkuveituna til að vinna megi úr niðurstöðum skýrslunnar.

Við afgreiddum nokkur mál í borgarráði. Við samþykktum að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Fossvogsbrú. Verkefnið er í samstarfi við Kópavogsbæ en brúin sjálf verður fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Gríðarlega spennandi verkefni sem ég vonast til að verði að veruleika á næstu árum. Við samþykktum líka að hefja útgáfu grænna skuldabréfa í Kauphöllinni fyrst allra á landinu. Græn skuldabréf eru til þess gerð að fjármagna verkefni á borð við Borgarlínu, hleðslustöðvar, skógrækt, göngu- og hjólastíga ásamt LED lýsingu svo eitthvað sé nefnt. Við samþykktum göngugötur á aðventu sem munu opna frá 13. desember nk. og verða til og með Þorláksmessu. Og við veittum samþykki okkar fyrir því að alþjóðasamtökin Women Political Leaders myndu fá leyfi til að nota nafn Reykjavíkur í nýjum jafnréttisstaðli sem mun bera heitið Reykjavík Index for Leadership. Mjög spennandi. Þá samþykktum við erindi frá samgönguráðuneytinu að finna í sameiningu stað fyrir minningarreit um fórnarlömb umferðarslysa.

Nokkur atriði í lokin. Á Lækjartorgi er núna afar óhugnanlegu jólaköttur sem við ætlum að kynna til leiks á morgun. Kötturinn er stór og vígalegur og er um að gera að leggja leið sína á Lækjartorg klukkan 16.00 á morgun. Minni svo á að hin vinsæla sýning Handverk og hönnun er hafin í ráðhúsinu og verður opin alla helgina. Hvet ykkur til að kíkja á hana líka.

Góða helgi!

Menntastefna til 2030 – Látum draumana rætast

Við höfum verið í umfangsmikilli vinnu við nýja Menntastefnu undanfarin misseri. Hún liggur nú fyrir og nær til ársins 2030. Stefnan er afrakstur samstarfs þúsunda borgarbúa með aðkomu barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, kennurum, stjórnendum, foreldrum, kjörinna fulltrúa ásamt innlendum og erlendum ráðgjöfum. Með stefnunni er lagður grunnur að framsæknu skóla- og frístundastarfi sem byggir á styrkleikum samfélagsins. Meðal annars verða veittar 200 milljónir króna í nýjan þróunarsjóð til að hefja innleiðingu menntastefnunnar strax á næsta ári. Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Unnið verður að því að öll börn öðlist sterka sjálfsmynd, trúi á eigin getu og nái árangri.  Þá er áhersla á að börn lesi sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Lagt er upp úr því að börn sýni frumkvæði, tileinki sér skapandi og gagnrýna hugsun og heilbrigðan lífsstíl. Ég er ótrúlega stoltur af þessari stefnu, niðurstöðum samráðsins og er mjög bjartsýnn á framhaldið sem er stóra málið, innleiðing stefnunnar.

Brúum bilið – 12 mánaða inn á leikskóla innan fimm ára

Til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla munum við fjölga leikskólarýmum um 700-750 á næstu fimm árum. Það verður gert með því að opna fimm nýja leikskóla, í Úlfarsárdal, Miðborg, Kirkjusandi, Vogabyggð og Skerjafirði, byggja við fimm starfandi leikskóla og opna 5-6 nýjar leikskóladeildir við leikskóla þar sem eftirspurn hefur verið með mesta móti í Fossvogi, Laugardal, Grafarvogi, Grafarholti og Breiðholti. Nú eru 14 ungbarnadeildir starfræktar við leikskóla borgarinnar og þeim verður fjölgað um sjö á ári þar til ungbarnadeild verður til staðar á öllum stærri leikskólum borgarinnar.  Þær eru sérútbúnar, með hita í gólfum, leiksvæði og búnaði sem hæfir börnum frá 12 mánaða aldri. Gengið verður til samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla um fjölgun barna og er ráðgert að þeim fjölgi um tæplega 170 á komandi árum til viðbótar þeirri fjölgun um 80 rými sem þegar hefur orðið á þessu hausti. Til þess að manna þessa leikskóla þurfum við að ráða í 50 stöðugildi á ári sem er mun færri stöðugildi en við höfum verið að ráða í á ári undanfarin ár. Þess vegna teljum við þetta viðráðanlegt.

Snjallræði – hraðall um samfélagslega nýsköpun í Listasafninu

Má til með að segja ykkur frá skemmtilegu verkefni sem borgin kemur að sem er nokkurskonar hraðall um samfélagslega nýsköpun. Nokkur snjallræðisteymi hlutu styrk kynna verkefnin sem þau hafa unnið að undanfarnar sjö vikur í samstarfi við öflugan hóp mentora og helstu sérfræðinga landsins á sviði samfélagslegrar nýsköpunar. Í október hóf fyrsti íslenski hraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, Snjallræði, göngu sína. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf. 40 umsóknir bárust þetta árið og þau verkefni sem unnu, eru afar fjölbreytt og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum. Verkefnin eru Bíllaus lífsstíll, Reykjavík er okkar, Akker – Samfélagshús, Þekkingarmiðstöð í öldrun, Heilun jarðar, Samgönguspor og Móttöku- og meðferðarhús fyrir ungt fólk í vanda. Snjallræði verkefnið er samstarf Höfða friðarseturs Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þá eru aðrir bakhjarlar verkefnisins Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups. Sem sagt, mjög öflugir aðilar sem standa að baki verkefninu enda mikið undir. Allt um Snjallræði og verkefnin hér.

Nýlegar færslur
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs