5.000 íbúðir á framkvæmdastigi, græn skuldabréf og útivistartímar breytast – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir, Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 16. nóvember 2018

Góð vika að baki í borginni. Við afgreiddum mörg stór mál í borgarráði, héldum vel sóttan, árlegan fund um uppbyggingu íbúðahúsnæðis og Árbæjarskóli vann Skrekk!

Borgarráð var hlaðið góðum málum. Í fyrsta lagi samþykktum við aukin framlög til barnaverndarmála í Reykjavík, við samþykktum kaup á Grandagarði 1A sem nýtt skaðaminnkandi úrræði fyrir unga vímunefnaneytendur en aðgerðin er hluti af aðgerðarpakka velferðarráðs í málefnum heimilislausra. Við fengum einnig ítarlega yfirferð yfir þær umfangsmiklu aðgerðir í málefnum húsnæðislausra sem velferðarsvið vinnur að. Við lögðum fram húsnæðisáætlun líka en hún er uppfærð tvisvar á ári vegna þeirrar miklu framþróunar sem á sér stað í uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Hugmyndir að umbótum og breytingum á starfsemi hverfaráða var líka lögð fram og er hægt að gera athugasemdir við þær næstu vikur. Við samþykktum líka útgáfu grænna skuldabréfa, fyrst allra á landinu. Afar mikilvægt verkefni. Borgarráð ákvað einnig að stofna ábyrgðarsjóð sem er nokkurskonar varasjóður borgarsjóðs til að mæta hugsanlegum efnahagslegum áföllum.

Í morgun héldum við svo mjög vel sóttan fund um húsnæðisuppbyggingu. Við höldum svona fundi einu sinni á ári, alltaf á haustin. Þá sýnir borgin á spilin og miðlar því sem er um að vera í uppbyggingu íbúða í Reykjavík. Í stuttu máli þá eru reitir með um 5.000 íbúðum komnir á framkvæmdastig núna í Reykjavík og mikill gangur í uppbyggingunni. Það sem gerir þetta uppbyggingarskeið í Reykjavík einstakt er það að við erum að byggja fjölbreytt húsnæði fyrir alla hópa. Við erum að blanda saman íbúum af öllum stærðum og gerðum og byggja fyrir alla hópa, hvort sem litið er til tekjuhópa eða hópa eins og aldraðra, stúdenta, félaga í verkalýðshreyfinginni og svo framvegis.

Annars verður næsta vika einnig spennandi á vettvangi borgarmálanna. Við munum kynna útfærða áætlun um hvernig Reykjavíkurborg hyggst brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og nýja menntastefnu. Bæði mál verða á dagskrá borgarstjórnarfundar sem er á dagskrá á þriðjudag.

Góða helgi!

Um 5.000 íbúðir á framkvæmdastigi – stærsta árið hingað til í útgefnum leyfum

Fundurinn um húsnæðismál í morgun var vel heppnaður og mæting framar vonum. Fagfólk úr byggingariðnaði mætir alltaf, hönnuðir, arkitektar, verktakar, fjárfestar, sérfræðingar og fleiri sem láta sig húsnæðismarkaðinn varða. Það sem mér fannst skemmtilegasta breytingin á þessum fundi miðað við fyrir ári síðan er hversu mörg svæði sem hafa verið deiliskipulögð á undanförnum misserum eru nú komin í framkvæmd. Á sama tíma fyrir ári voru 3.100 íbúðir á reitum á framkvæmdastigi. Nú eru þær 4.828 sem er fjölgun á einu ári um meira en 1.700 íbúðir. Gangurinn í því að skipuleggja svæði og gefa út leyfi til uppbyggingar á sér í raun engin fordæmi. Er ég bæði stoltur og þakklátur starfsfólki á umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar og á velferðarsviði fyrir öll þeirra störf á undanförnum árum í þessu stærsta húsnæðisátaki í sögu borgarinnar. Á næstu árum sjáum við fram að betra jafnvægi náist á húsnæðismarkaði. Í því skiptir miklu að öll sveitarfélög leggi sig fram. Í tengslum við fundinn gáfum við út sérstakt bækling sem gefur góða mynd af umfangi þeirrar uppbyggingar sem nú á sér stað í Reykjavík. Hér er svo upptaka og glærur af fundinum.

Græn skuldabréf – hvað er nú það?

Græn skuldabréf hafa verið að ryðja sér til rúms í heiminum á undanförnum árum. Reykjavík tók af skarið í vikunni þegar borgarráð samþykkti undirbúning á útgáfu grænna skuldabréfa samkvæmt viðurkenndum stöðlum Green Bond Principle. Tilgangurinn með grænum skuldabréfum fyrir Reykjavík er að fjármagna stór fjárfestingarverkefni á sviði umhverfismála á hagstæðum vöxtum. Við erum nú þegar með metnaðarfull markmið í umhverfismálum enda hefur borgin sett sér að verða kolefnishlutlaus árið 2040. Ef það á að ganga upp þurfum við að fara í verkefni sem lúta að samgöngum sem krefjast grænnar fjárfestingar á borð við Borgarlínu. Samkvæmt skilgreiningu eru græn skuldabréf hvers kyns skuldabréfagerningar þar sem fjármunum er varið til að fjármagna græn verkefni. Græn skuldabréf eru í eðli sínu hefðbundin skuldabréf en söluandvirði skuldabréfanna er eyrnamerkt tilteknu umhverfisvænu verkefni. Ég er afar stoltur af því að Reykjavíkurborg skipi sér í græna forystu með að hefja útgáfu slíkra bréfa.

Útivistartímar breytast

Það er árlegur viðburður að borgarstjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sendi ísskápasegla heim til barna í 1. bekk og 5. bekk í Reykjavík til að upplýsa þau og foreldra þeirra um útivistarreglurnar. Markmiðið með útivistarreglunum er að stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir börn og unglinga. Reglurnar eru fyrst og fremst settar til verndar börnum og stuðla að því að þau séu ekki ein og eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur. Reglurnar eru afar einfaldar. Frá 1. september til 1. maí ár hvert eiga öll börn 12 ára og yngri að vera komin heim fyrir klukkan átta á kvöldin en þau sem eru 13-16 ára ekki seinna en tíu. Ég hvet öll heimili til að ræða reglurnar og markmið þeirra og öll börn og foreldra til að standa saman um að virða þær.

Nýlegar færslur
Dagur B. EggertssonSkúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs