Húsnæðisfundur, samstarf við VR, íþróttamannvirki og Airwaves – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, 9. nóbember 2018

Airwaves í fullum gangi og hvet ég alla til að njóta þess sem þessi frábæra tónlistarhátíð hefur upp á að bjóða. Vikan hefur verið viðburðarrík. Við lögðum fram fjárhagsáætlun á þriðjudag í borgarstjórn og vísuðum til seinni umræðu sem verður í byrjun desember. Við erum afar stolt af þessari fjárhagsáætlun, í fyrsta lagi erum við að tryggja fjármagn til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og til nýrra NPA samninga við fatlað fólk. Í öðru lagi erum við í mörgum grænum fjárfestingum á grundvelli aðalskipulagsins en sú stærsta á þeim vettvangi er Borgarlínan þar sem við gerum ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta kjörtímabilsins. Í þriðja lagi heldur uppbygging íþróttamannvirkja í austurhluta borgarinnar áfram og fjórða lagi höldum við áfram að efla velferðarþjónustu og auka framlög til leik- og grunnskóla í borginni. Þjónustugjöldum er áfram haldið í lágmarki þannig að það verði áfram hagstætt fyrir barnafjölskyldur, unga sem aldna að búa í Reykjavík.

Í borgarráði voru ýmis góð mál til umræðu og afgreiðslu. Við vísuðum drögum að menntastefnu borgarinnar til borgarstjórnar og stefnum á að samþykkja hana í mánuðinum. Stefnan er ekki bara unnin í samstarfi við helstu sérfræðinga veraldar í menntamálum heldur hafa allir hagsmunaaðilar, nemendur, foreldrar, kennarar og skólafólk getað lagt hönd á plóg og komið með tillögur og viðbætur – mörg þúsund aðilar hafa beinlínis komið að undirbúningnum. Hlakka til umræðna um menntastefnu síðar í mánuðinum. Þá samþykktum við lóðarvilyrði til VR til uppbyggingar 36 íbúða – en ég hitti formann félagsins á fundi fyrir nokkrum vikum þar sem þetta var rætt. Þetta er spennandi verkefni og gæti gengið hratt og vel. Og við úthlutuðum sjö lóðum undir fjölda íbúða í Úlfarsárdal í borgarráði í vikunni. Þá er gaman að geta sagt frá því að borgarráð samþykkti í gær að gengið yrði að besta tilboðinu í knatthús og inniæfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir í Mjóddinni.

Meira um húsnæðismálin. Nú styttist í árlegan haustfund okkar um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík en hann verður haldinn eftir slétta viku í Tjarnarsalnum í Ráðhúsinu kl. 8.30. Tilgangur fundarins er að sýna hver staðan á íbúðauppbyggingunni í Reykjavík er. Viðburðurinn er hér á facebook, hvet ykkur til að líta við. Meira um uppbyggingarfundinn hér fyrir neðan.

Minni svo á að úrslitakvöld Skrekks fer fram mánudaginn 12. nóvember klukkan 20 í Borgarleikhúsinu. Átta grunnskólar keppa til úrslita og verður keppnin sýnd í beinni útsendingu á ungruv.is. Það verða yfir 200 unglingar sem stíga á stóra svið Borgarleikhússins og taka þátt í uppfærslum á sviðsverkum sem þau hafa sett saman sjálf. Við getum sannarlega verið stolt af unglingunum okkar!

Góða helgi!

Haustfundur um húsnæðismál – staðan í Reykjavík og ný greining frá Capacent

Mikil  uppbygging er nú í gangi á nýju íbúðarhúsnæði í Reykjavík og nú þegar ljóst  að  í ár verða slegin öll fyrri met í nýbyggingu íbúða í borginni. Samkvæmt útgefnum byggingarleyfum var hafin bygging á 1.182 íbúðum í borginni á fyrstu níu mánuðum ársins. Fara þarf allt aftur til ársins 1973 til að finna svipaðan fjölda en þá var hafin smíði á 1.133 íbúðum í borginni ef tekið er allt árið. Áætlað er að alls verði hafin smíði 1.330 nýrra íbúða á þessu ári, sem er umtalsverð aukning frá árunum 2015-2017 þegar að jafnaði var byrjað á rúmlega 920 íbúðum ár hvert. Það voru þó metár. Við förum yfir ítarlegar og spennandi upplýsingar um stöðu húsnæðismarkaðarins á föstudaginn. Hvet ég alla til að mæta á þennan mikilvæga fund um eitt af stærstu viðfangsefnum samtímans. Tjarnarsalur kl. 8.30 næsta föstudag! Viðburður á facebook hér!

Grænar fjárfestingar í Reykjavík

Í fjárhagsáætluninni sem við lögðum fram í vikunni er sérstök áhersla á grænar fjárfestingar. Meðal þeirra eru nokkrar stórar byggingar sem eru með Breeam vottun, kaup á nýjum sorpbifreiðum sem nú þegar allar ganga fyrir metani, auk kaupa á bifreiðum fyrir borgina sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Göngustíga og hjólreiðaáætlun heldur áfram þar sem við fjárfestum fyrir 450 milljónir á hverju ári. LED væðing götulýsingar er hafin en það er mun umhverfisvænni lýsing en sú sem við eigum að venjast. Nú þegar hafa margar hleðslustöðvar fyrir rafbíla verið settar upp, sumar í bílastæðahúsum en aðrar í borgarlandinu. Þá er sér kafli um líffræðilega fjölbreytni og endurheimt votlendis en stærsta græna fjárfestingin er án efa þeir fimm milljarðar sem við leggjum sem framlag borgarinnar til Borgarlínu. Allt um fjármálin hér.

Uppbygging íþróttamannvirkja í austurborginni

Við erum í mjög stórum fjárfestingum í íþróttamannvirkjum í borginni, ekki síst í austurhluta borgarinnar. Í Úlfarsárdal og Grafarvogi eru að rísa íþróttahús en þau eru líka að bætast við í Mjóddinni í Breiðholti þar sem við samþykktum í gær í borgarráði að gengið yrði að besta tilboðinu í knatthús og inniæfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Verkefnið fór í alútboð og í kjölfar samþykktar borgarráðs verður gengið frá samningi við verktakann sem ljúka mun hönnun og hefja framkvæmdir. Þessi mikilvægi áfangi í uppbyggingu ÍR-svæðisins er með öðrum orðum að skila sér í höfn

 

Nýlegar færslur
Dagur B. Eggertsson