Hagkvæmt húsnæði, loftmengun og Airwaves – Vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, 2. nóbember 2018

Vikupósturinn snýr aftur eftir stutt veikindaleyfi og vil ég nota tækifærið til að þakka fyrir allar kveðjurnar og hlýhuginn sem ég hef fundið undanfarna daga og vikur.

En nóg um mig. Þessi vika hefur verið skemmtileg og gott að koma til baka. Hún hefur verið undirlögð af fjárhagsáætlun og borgarráð hefur fundað þrjá heila daga í þessari viku og fengið kynningar frá öllum sviðum borgarinnar og b-hluta fyrirtækjum. Stjórnendur hjá borginni hafa verið vakin og sofin við undirbúning fjárhagsáætlunar og hafa lagt sitt mál fram af fagmennsku og framsýni. Kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Verkefnin eru ótalmörg og eftir vikuna er ég spenntur fyrir framlagningu áætlunarinnar í næstu viku. En fjárhagsáætlun verður til fyrri umræðu í borgarstjórn á þriðjudag. Fjárhagsáætlunin markar stefnuna fyrir næsta ár og næstu fimm ár í fjármálum, fjárfestingar  og rekstri borgarinnar sem kallast á við öll þau fjölmörgu verkefni af öllum stærðum og gerðum sem borgin sinnir á degi hverjum.

Á þriðjudaginn áttum við mjög fínan fund um menntastefnu. Eftir umfangsmikið samráð sem þúsundir Reykvíkinga tóku þátt ríkir bæði eftirvænting og samhljómur um næstu skref. Meira um það seinna. Í morgun héldum við svo vel heppnaðan fund um hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur. Þar eru margar ótrúlega metnaðarfullar hugmyndir sem endurspegla nýja hugsun á húsnæðismarkaði. Lóðirnar eru meðal annars lóðir sem við keyptum af ríkinu sem hafa staðið auðar um áratugaskeið. Það er því fagnaðarefni að við tókum þetta stóra skref í dag þar sem væntanlegir uppbyggingaraðilar kynntu sín áform. Næsta skref er að ganga til samninga til að markmið þessa mikilvæga verkefni um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Annars er rosalega mikið um að vera í Reykjavík. Airwaves byrjar í næstu viku og við opnum göngugötur í tilefni af því. Þá fengum við þau ánægjulegu tíðindi að þátttaka í kosningum íbúalýðræðisverkefnisins Hverfið mitt hefur aldrei verið betri, en kosningaþátttaka var 12,5%.  Kosningaþátttaka árið 2017 var 10,9% og þar áður 9,4%. Almennt út í heimi er þátttaka mun minni en í Reykjavík þannig að ég er einstaklega stoltur af þessum árangri hjá borgarbúum og vonandi fáum við mörg skemmtileg verkefni í hverfum borgarinnar.

Góða helgi!

Hagkæmt húsnæði fyrir ungt fólk – 500 nýjar íbúðir

Þegar við fórum af stað með verkefnið Hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur vissum við að við myndum fá margar góðar hugmyndir frá uppbyggingaraðilum enda mikil gerjun á húsnæðismarkaði. Hugmyndirnar í upphafi voru tæplega sjötíu talsins en á fundinum í morgun voru níu aðilar sem höfðu skorað hæst sem kynntu verkefnin sín. Þessir níu hópar er afrakstur afar vandaðs mats á innsendum hugmyndum þar sem ólík atriði vógu misþungt, allt frá grænum lausnum upp í framkvæmdahraða og endanlegt verð til kaupenda eða leigjenda. Þá verður hluti af kvöðunum sem borgin setur ætlað að tryggja að verð og leiga skili sér til væntanlegra kaupenda og leigjenda í samræmi við tillögur uppbyggingaraðila. Þessi nýsköpun og í raun brautryðjendastarf á húsnæðismarkaði er algjörlega einstök og það er mjög spennandi að uppbygging geti farið að hefjast, meðal annars á ríkislóðum sem hafa staðið ónotaðar um áratugaskeið. Þakka öllum sem komu í morgun en hér er svo hægt að skoða allar kynningar af fundinum.

99 íbúðir til Bjargs 

Húsnæðisáætlun borgarinnar gengur vel og til marks um það þá vorum við að úthluta lóð til Bjargs undir 99 íbúðir í Hraunbæ-Bæjarháls. Það er gaman að sjá hversu fjölbreytt húsnæðisáætlun borgarinnar er. Þar erum við í samstarfi við eldri borgara, verkalýðshreyfinguna, stúdenta og marga fleiri aðila. Á sama tíma erum við að tryggja a.m.k. 500 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sem ég nefndi hér að ofan. VIð þetta bætist svo hinn hefðbundni húsnæðismarkaður. Verkefni Bjargs eru ærin og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við verkalýðshreyfinguna.

Loftmengun – skiljum bílinn eftir heima

Við þurfum að grípa til aðgerða þegar kemur að loftmengun á höfuðborgarsvæðinu. Hún er hættuleg og óvelkomin. Á götum borgarinnar eru alltof margir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og eru sumir hverjir ennþá á nagladekkjum. Hvorutveggja er mikill mengunarvaldur. Borgin hefur ekki heimildir til að loka stórum umferðaræðum sem eru á hendi ríkisins og ekki heldur heimildir til að kyrrsetja bíla. Við getum hinsvegar hvatt íbúa til að ferðast með öðrum hætti en með bíl. Og það gerðum við í gær þegar veðurspá dagsins lá fyrir. Ég veit til þess að hvatning borgarinnar í gær náði eyrum margra sem tóku þeirri áskorun í morgun. Ef mengunin heldur áfram þarf að grípa til frekari viðbragða í samvinnu við ríkið og löggjafann sem skilgreinir völd sveitarfélaga í þessu efni. Loftmengun dregur til dauða sjö milljónir manna á hverju ári og við berum ábyrgð á því saman hér á höfuðborgarsvæðinu að draga eins mikið úr mengun og auka loftgæði eins og hægt er.

Airwaves og göngugötur

Airwaves tónlistarhátíðin byrjar á miðvikudaginn og ég er alltaf mjög spenntur fyrir því. Dagskráin er að venju frábær  og fer hátíðin fram um alla borg. Í tilefni af Airwaves þá höfum við haft þann háttinn á undanfarin ár að opna göngugötur í miðborginni. Það verður áfram í ár og verður Laugavegur frá Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtstrætis og Skólavörðustígur frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti göngugötur dagana 7.-10. nóvember. Hvet ykkur til að kíkja á hátíðina.

Nýlegar færslur