Friðarsúlan, braggamálið og opnun Hafnartorgs – vikulegur vettvangur Dag B. Eggertssonar borgarstjóra

 í flokknum: Fréttir úr borginni

Þetta er vikulegur vettvangur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, 10. október 2018

Vikupósturinn er með seinni skipunum að þessu sinni. Það er hins vegar fjölmargt um að vera í borginni, friðarvika stendur yfir, fyrsta göngugatan og fyrsti hluti Hafnartorgs opnar á föstudaginn og skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans verður tekin á laugardag.

Í borgarráði á morgun er margt á dagskrá en einna hæst ber tillögu meirihlutans um málefni braggans í Nauthólsvík. Endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík er alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun. Fregnir af einstaka reikningum og verkþáttum undanfarna daga kalla augljóslega á skýringar og undirstrika mikilvægi þess að málið er komið í hendur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Til að undirstrika alvöru málsins leggur meirihlutinn í borgarstjórn fram tillögu til samþykktar í borgarráði á morgun til að árétta að enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda.

Eins og áður segir stendur friðarvika yfir. Metfjöldi var í Viðey í gærkvöldi og áttu dásamlega stund þegar Friðarsúla Yoko Ono, Imagine Peace Tower. Þetta var í tólfta sinn sem við kveiktum á þessu magnaða listaverki á afmælisdegi John Lennon en hún lýsir upp næturhimininn til 8. desember, dagsins sem Lennon var myrtur. Dagskráin var með nokkuð hefðbundnu sniði, hinn frábæri kvennakór, Graduale Nobili söng nokkur lög á sinn einstaka hátt undir stjórn Þorvalds Arnar Davíðssonar. Yoko sjálf hefur alltaf komið þar til í ár. Hún sendi þó stutt ávarp sem var varpað upp á skjá í eynni. Líkt og fyrri ár bauð Yoko öllum bátsfar í eyjuna með einhverjum af bátum Eldingar en borgin bauð upp á ókeypis strætóferðir til og frá Skarfabakka í gærkvöldi. Vil ég þakka skipuleggjendum fyrir frábæran viðburð og borgarbúum fyrir notalega samveru.

Og á föstudaginn ætlum við að opna Hafnartorg og göngugötuna Reykjarstræti sem verður megingönguæðin í þessu vel heppanaða verkefni. Á sama tíma opnar H&M og fleiri búðir munu svo opna í kjölfarið. Hvet ykkur til að kíkja á þennan nýja miðborgarhluta sem á án efa eftir að draga að mannlíf, verslun og viðskipti.

Aukin tíðni og forgangur strætó
Á undanförnum árum höfum við sótt fram í almenningssamgöngum. Við höfum gert fjölda forgangsreina og forgangsljósa þannig að strætó á helstu leiðum er oft í forgangi umfram bíla. Þá höfum við fjölgað forgangsljósum þar sem strætóinn getur haldið græna ljósinu örlítið lengur til þess að komast yfir. Þetta hefur allt gengið vel og eflaust átt þátt í því að fjölga farþegum. Við færðum helstu stofnleiðir á tíu mínútna tíðni á álagstímum á síðasta kjörtímabili en í borgarstjórn í vikunni var ákveðið að fulltrúi okkar í stjórn strætó fengi samþykkt að setja þessar sömu stofnleiðir á 7,5 mínútna tíðni á álagstímum. Þetta er eitt þeirra verkefna sem kallar á samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en skýr vilji borgarstjórnar liggur fyrir en tillagan var samþykkt með 22 atkvæðum af 23 sem var mjög ánægjulegt. Stefnt er að því að breytingin verði áramótin 2019-2020.
Forvarnardagurinn – frá því að vera verst yfir í að vera best
For­varn­ar­dag­ur­inn var hald­inn í þrettánda sinn í vikunni. Ég fékk að hitta krakkana í Réttarholtsskóla í síðustu viku og svo héldum við forvarnardaginn hátíðlegan með 9. bekkingum í Hagaskóla. Hef sagt það nokkr­um sinn­um áður, við erum að ala upp efni­leg­ustu kyn­slóð ung­linga frá upp­hafi. Allar tölur um neyslu áfeng­is, tób­aks og fíkni­efna ungmenna eru á niður­leið – sem er jákvætt – og hafa verið það síðan 1998 þegar verkefnið byrjaði. Einu sinni vor­um við „lé­leg­ust í bekkn­um“ af lönd­um Evr­ópu en nú horfa er­lend ríki til Íslands og þeirra aðferða sem við höf­um verið að beita í for­vörn­um. Það líður varla sú vika að erlendir fjölmiðlar óska eftir viðtölum vegna þessa mikla árangurs. Þar er einkum þrennt sem kem­ur til sem hefur samkvæmt rannsóknum borið mestan árangur. Í fyrsta lagi auk­in sam­vera unglinga með for­eldr­um, í öðru lagi þátt­taka í skipu­lögðu íþrótt­a­starfi og að lok­um félagahópurinn. Munum að hvert ár sem líður án þess að ung­ling­ar byrji að drekka skipt­ir máli.
OR fær risastyrk
Það er mikilvægt hvað Orkuveitan hefur sótt fram í nýsköpun á undanförnum árum og er nú leiðandi á sviði grænnar orku og því hvernig má binda gróðurhúsalofttegundir í berg. Orkuveitan fór í mikilvæga tilraunavinnu á sínum tíma þar sem koltvíoxíð og brennisteinsvetni er leyst upp í vatni og því dælt djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára sem er mun skemmri tími en búist var við í upphafi. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninu til frambúðar. Nú hefur ESB ákveðið að styrkja samstarfsverkefnið GRECO um tvo milljarða, hvorki meira né minn. OR mun leiða verkefnið en fyrirtækið er eitt af átján fyrirtækjum og stofnunum víðsvegar að úr Evrópu.
Nýlegar færslur