Borg fyrir alla – ræða Ingibjargar Guðmundsdóttur

 í flokknum: Pistill, SffR

Að venju kom félagshyggjufólk saman í Iðnó eftir útifundinn á Ingólfstorgi 1. maí en um árabil hefur Samfylkingarfélagið í Reykjavík staðið fyrir baráttufundi og kaffi að þessu tilefni. Að þessu sinni fluttu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Ragna Sigurðardóttir læknanemi og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs og Ingibjörg Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur ræðu í tilefni dagsins.

Hér má lesa ræðu Ingibjargar:

______________________

Iðnó, 1. maí 2018

Kæru Samfylkingarfélagar og aðrir gestir.

Ég heiti Ingibjörg Guðmundsdóttir og er hjúkrunarfræðingur á eftirlaunum. Þegar mér var falið af stjórn SffR að flytja ávarp á baráttudegi verkalýðsins 1.maí var freistandi að afþakka þann heiður. Þegar venjubundnum verkefnum lýkur hættir manni nefnilega til að hætta því smátt og smátt sem manni var tamara áður. En baráttuhugurinn er samur við sig og ég sagði bara já því mér finnst gaman að fá tækifæri að tala til ykkar á þessum degi.

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins rekur upphaf sitt til ársins 1889 í París en fyrsta kröfugangan á Íslandi var farin 1. maí 1923. Dagurinn var samt ekki gerður að lögskipuðum frídegi fyrr en árið 1972. Síðan göngum við alltaf kröfugöngu á þessum degi. Höfuðinntak hans er: Krafan um breytingar og réttlátt samfélag. Og því miður bendir allt til að þessarri kröfu verði sífellt að halda við, baráttan tekur aldrei enda.

Í samfélagi með slíka mismunun að 1% þjóðarinnar (2000 fjölskyldur) eigi meira en þau 80% sem eiga minnst (175.000 fjölskyldur) (Mannlíf 6. tbl. 2. árg. 13. apríl 2018) þá verður að halda baráttunni áfram. Til þess verðum við að treysta okkur sjálfum og þeim stjórnmálaöflum sem til þess eru valin. Þess vegna erum við hér í dag. Þegar ég hætti störfum við hjúkrun, fyrir rúmlega tíu árum, fór ég að starfa með Samfylkingunni. Hjúkrunarstarfið býður uppá mikil tengsl og kynni við fólk og félagsstörf skemmtilegt framhald þar á. Ég settist í stjórn 60+ sem var nýstofnað í flokknum. Við vorum bjartsýn og tilbúin að berjast fyrir málefnum eldra fólks í flokknum og samfélaginu. Þá var aðaláherslan lögð á endurskoðun laga um elli- og örorkulífeyri og hlutverk Tryggingarstofnunnar ríkisins að tryggja þessum hópi viðunandi lífskjör. Samfylkingin var í ríkisstjórn, reyndar með Sjálfstæðisflokknum, en samt skyldi þetta nást. Við vitum öll um framhaldið e-u hefur þokað áfram en alltaf sitja þeir verst settu eftir. Nokkrar helstu áherslur Landssamtakanna 60+ innan Samfylkingarinnar núna eru að vinna að því að skerðingar á greiðslum Tryggingarstofnunar ríkisins vegna áunninna lífeyrissjóðsréttinda og launa verði afnumdar, og skert kostnaðarþáttaka ríkisins í lyfja og sjúkrakostnaði komi ekki illa við eldri borgara. Einnig að meira verði byggt af ódýrum íbúðum, fólk hafi val um kaup eða leigu og heimaþjónusta við aldraða sjúka verði aukin.

Ennþá er grunnlífeyrir aldraðara aðeins 240.000, langt undir viðurkenndum framfærsluviðmiðum og lægri en lægstu laun og hagur fjölmargra eldri borgara ekki góður. Skv. viðtali við framkvæmdastjóra Félags eldri borgara í Reykjavík eru margir, tíu árum eftir hrun, ennþá mjög illa staddir og sér ekki fyrir endann á. Margir voru jafnvel að hjálpa börnum sínu og skrifuðu uppá lán og misstu síðan eignir sínar til bankanna. Og of seint gangi að byggja félagslegt leiguhúsnæði til að bæta ástandið. Síðustu fréttir eru þó að borgarráð hafi samþykkt á síðasta fundi að úthluta félaginu lóð undir leiguíbúðir á góðum stað í borginni. Gott að heyra Dagur. Konur, sem ekki voru lengi á vinnumarkaði hafa mjög takmarkaðan lífeyri. Þær voru að sinna börnum sínum, leikskólar ekki í boði. Þetta fólk býr við fátækt, viljum við hafa þetta svona?

Einn er sá hópur sem er illa sinnt af yfirvöldum og þurfa stuðning stjórnmála-flokka til að ná réttlæti en það eru aldraðir innflytjendur á Íslandi. Þeir fá í dag mjög lítið sér til framfærslu vegna skammrar starfsævi hér á land, ef þau hafa ekki slík réttindi í landinu sem þau komu frá. Algengt er að þeirra ellilífeyrir sé undir 100.000 og /eða að þau verði alfarið að treysta á framfærslu sveitarfélaga sem er lægri en grunnlífeyrir. Slík framfærsla er ekki hugsuð til þessarra þarfa.

Árið 2017 voru innflytjendur rúmlega 26.000 manns og voru þeir 16,5 % starfandi fólks á vinnumarkaði. Í upplýsingum frá Velferðarsviði sést að stærsti hópur innflytjenda sem koma hingað til landsins sé vegna fjölskyldu-sameiningar. Manneskjan sem kemur til Íslands til að auðga mannlífið með starfi, þekkingu og sjálfum sér, ómissandi vinnuafl við að reka samfélagið, henni fylgir fjölskylda, börn og foreldrar. Þar að auki eldist hún líka. Fólkið sem er ómissandi í umönnunarstörfum, byggingariðnaðinum að ekki sé talað um í ferðaþjónustunni. Við þetta fólk höfum við skyldur, við óskum eftir vinnuafli en þó undarlegt sé, þá fáum við fólk. Þau borga skatta og skyldur eins og krafist er af okkur öllum og við eigum að bregðast við þeirra aðstæðum. Ég segi bara, hysjum upp um okkur og lögum þetta. Fólk mun halda áfram að flytjast milli landa og svæða hvort sem okkur líkar það betur eða verr, tökum á móti því með mannúð og reisn, verum MANNESKJUR.

Lítum aftur á kröfu 1.maí um breytingar og réttlátt samfélag, ber barátta einhvern árangur?

Auðvitað finnst okkur að breytingar gangi seint og alltaf bætast ný viðfangsefni við. Mig langar samt að nefna tvennt sem ég, ásamt stórum hópi fólks og forystufólks, hef borið gæfu til að taka þátt í. Tilkoma Kvennaframboðs og Kvennalista árið 1980 vakti mikla athygli á ójafnri stöðu kynjanna í stjórnmálum og lagði grunninn að áframhaldandi þróun. Rauðsokkur vöktu reyndar athygli á stöðu kvenna á þessum degi, 1. maí 1970, og gengu í göngunni í fyrsta sinn, með stóra styttu af konu þar sem á stóð „manneskja en ekki markaðsvara“. Þessi hreyfing hefur verið nefnd önnur byltingin í jafnréttismálum (Sú fyrsta var þegar konur fengu kosningarétt til Alþingis 1915). Sú þriðja er í gangi núna og lýsir sér síðast í Me too átakinu og kominn tími til. Ekki lítil drulla komin uppá yfirborðið og allt rétt að byrja. Þar er mikið starf óunnið en mikilvægast er að ofbeldið er komið uppá yfirborðið og viðurkennt. Samfylkingin stendur vel í að viðurkenna og takast á við verkefnið innan sinna raða og takk Heiða.

Ég tók þátt í undirbúningi og stofnun Samfylkingarinnar á sínum tíma. Ég fylgdist með framvindunni og hef alltaf haft þá skoðun að aðkoma Kvennalistans hafi verið nauðsynleg til að ná vinstri flokkunum Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi til samtals um sameiningu sem tókst árið 2000. Eins og við vitum hafa lög Samfylkingarinnar og efndir gætt þess að í öllum stofnunum flokksins sé kynjajafnræði og hefur sú staðfesta breytt kynjahlutfalli í stjórnmálum og laga- setningum og breytt ásýnd samfélagsins. Jafnréttisbaráttan hefur styrkt aðra samfélagshópa s.s. samkynhneigða. Þar starfaði ég einnig um árabil og og áður en ég sagði skilið við störf í þeim málaflokki var staða transgender fólks einnig komin vel uppá yfirborðið. Ég rifja þetta upp svona að gamni mínu til að minna á að góðir hlutir gerast stundum hægt en vinnst þó hægt fari. Baráttan hættir aldrei og vinnst ef við gefumst ekki upp þegar góð málefni, sanngirni og réttlæti á í hlut. Nú er ég líka að vona að olnbogabörnin okkar og aðstandendur þeirra séu komin með rödd sem heyrist hátt í samfélaginu.

Næsta verkefni eru kosningar til sveitarstjórna næstkomandi 26. maí og komið að því Samfylkingarfólk að vinni borgina. Við förum fram undir slagorðinu ÁFRAM REYKJAVÍK (en ekki afturábak). Flokkurinn þarf á okkur öllum að halda að leggja eitthvað af mörkum, hver á sinn hátt. Hjálpumst að í kosningabaráttunni að leggja okkar af mörkum. Við viljum tryggja að Reykjavík verði skemmtileg, umhverfisvæn og aldursvæn borg þar sem jöfnuður og virðing ríkir fyrir fólki af öllum gerðum og aldri.

ÁFRAM REYKJAVÍK

Nýlegar færslur
Ragna Sigurðardóttir