Sigríður Arndís kjörin formaður

 í flokknum: Fréttir, SffR

Aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík fór fram í gær, miðvikudaginn 22. mars. Fram kom á fundinum að félagið, sem er fjölmennsta aðildarfélag Samfylkingarinnar, stendur vel fjárhagslega og starfsárið 2017-2018 hafi verið líflegt þar sem fjöldi viðburða voru haldnir.

Á fundinum var Sigríður Arndís Jóhannsdóttir kjörin formaður félagsins en Magnús Már Guðmundsson sem gengt hefur formennsku undanfarin tvö ár gaf ekki kost á sér áfram. Sigríður skipar 13. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Sigríður starfar sem verkefnastjóri á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar fyrir Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar. Hún hefur nánast allan sinn starfsferil starfað hjá borginni fyrir utan tímabil sem mannauðssstjóri í Skagafirði. Sigríður Arndís segist ætla að nýta reynslu sína til að halda upp kröftugu starfi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Hún segir að í störfum sínum hafi hún öðlast reynslu, áhuga og yfirsýn yfir hvað einkenni gott borgarsamfélag.

„Mér hefur verið treyst til að leiða nýjungar, þróa betri þjónustu, tengja saman fólk og félagasamtök og koma að jafn ólíkum verkefnum eins og að sporna gegn brotthvarfi ungmenna úr námi, stuðningi við fátækar fjölskyldur, samfellu í skóla- og frístundastarfi barna, heilsueflandi borg fyrir alla aldurshópa, móttöku hælisleitenda og þjónustu við eldri borgara,“ segir Sigríður.

Á aðalfundinum var Herbert Baldursson, endurskoðandi, kjörinn gjaldkeri Samfylkingarfélagsins. Auk þeirra voru Ari Guðni Hauksson, Jódís Bjarnadóttir, Sólveig Ásgrímsdóttir, Stefán Benediktsson og Vigdís Arna kjörin í aðalstjórn. Í varastjórn voru kjörin Fanney Svansdóttir, Fríða Pálsdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson, Magnús Þorgrímsson og Stefán Svavarsson.

Nýlegar færslur
Sigríður Arndís og Heiða Björg. Lagt er til að Sigíður Arndís verði formaður SffR. Heiða Björg mun á fundinum fjalla um borgarstjórnarkosningarnar í maí nk.