11 mánuðir í Hvergilandi stjórnvalda

 í flokknum: Pistill, SffR

Fæðingarorlofi foreldra lýkur við 9 mánaða aldur barns og börn eru að meðaltali 20 mánaða þegar þau komst inn á leikskóla. Í 11 mánuði eru þau hvorki hér né þar, föst í Hvergilandi stjórnvalda. Í 11 mánuði þurfa foreldrar að brúa bilið – vera launalaus heima, fá meiriháttar aðstoð annarra fjölskyldumeðlima eða borga háar fjárhæðir til að komast að hjá dagforeldri eða í einkareknum leikskóla. Miðað við þann tíma sem það hefur tekið stjórnvöld að bregðast við þessum vanda er engu líkara en þetta sé óbrúanlegt bil, ævarandi hluti þess að eignast barn á Íslandi. En þetta þarf ekki að vera svona. Með réttri forgangsröðun er hægt að brúa þetta bil.

Lengjum fæðingarorlofið

Fjölskyldum verður að vera gert kleift að vera heima með nýjum fjölskyldumeðlimi í að minnsta kosti eitt ár frá fæðingu. Fyrir því er margvísleg rök og þau veigamestu snúa að því að það er ungu barni fyrir bestu að vera lengur hjá foreldrum sínum upp á tengslamyndun og þroska þess.

Það er því orðið löngu tímabært að lengja fæðingarorlofið. Algjör óþarfi er að þæfa málið eins lagt er til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna og hægriflokkanna. Hvað lengd fæðingarorlofs varðar erum við eftirbátar þjóða sem við berum okkur að jafnaði við. Lengra fæðingarorlof er ein lykilforsenda þess að brúa bilið sem skapast þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur við 9 mánaða aldur og þar til börn komast komast inn á leikskóla.

Á Alþingi liggur fyrir frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuði í 12 mánuði. Það er ekkert því til fyrirstöðu en að ganga hratt og örugglega til verka hvað þetta varðar. Nógu margar skýrslur og tillögur liggja fyrir.

Tryggjum dagvistunarúrræði strax að loknu fæðingarorlofi

Könnun sem BSRB gerði á síðasta ári leiddi í ljós að börn eru að meðaltali 20 mánaða þegar þau komast inn á leikskóla hér á landi. Þá kom fram útttekt BSRB að dagforeldrar er aðeins starfandi í 21 af 74 sveitarfélögum. Bent hefur verið á skekkjuna sem í því felst að sveitarfélögum er í sjálfsvald sett við hvaða aldur börn eiga rétt á dagvistunarúrræðum. Þar sker Ísland sig frá hinum Norðurlöndunum, sem við berum okkur svo gjarnan við, en þar er skýrt kveðið á um rétt barna til dagvistunar eftir fæðingarorlof sem er auk þess alltaf lengra en hér á landi.

Við í Samfylkingunni í Reykjavík höfum unnið að því markmiði að öllum 18 mánaða börnum standi pláss á leikskóla til boða. Stefnt er að því að lækka þann aldur enn frekar þegar fram í sækir. Fjölgun dagforeldra, en ekki síst stofnun ungbarnadeilda á leikskólum, eða srstakir ungbarnaleikskólar, eru lykilatriði þegar kemur að því að brúa bilið. Settar voru á stofn sjö ungbarnadeildir á síðasta ári í Reykjavík. Þeim mun fjölga á næstunni. Í mars kynnum við áætlanir sem gera ráð fyrir inntöku enn yngri barna í lekskólana. Lokatakmarkið er síðan að bjóða leikskólavistun frá 12 mánaða aldri. Þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að brúa bilið.

Brotið kerfi

Umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og fram að því að barn kemst að jafnaði inn á leikskóla er  11 mánuðir. Rætt tæplega ár. Þetta bil sem skapast reynist ansi mörgum erfitt að brúa og skapar auk þess mikið óöryggi og jafnvel vanlíðan þegar ekki liggur fyrir hvað taki við að loknu fæðingarorlofi. Villta vesturs ástand er staðreynd þar sem foreldrar keppast um að koma börnum sínum að á biðlista hjá einkareknum leikskólum eða dagforeldrunum. Utanumhald og gegnsæi er svo gott sem ekkert og kunningjaskapur og rétt tengsl geta hjálpað til. Þá er þekkt að foreldrar borgi sérstakar greiðslur til að tryggja barni  vistun. Þetta ástand hefur fengið að viðgangast alltof lengi og því þarf hreinlega að breyta.

Til marks um stöðuna er hópurinn „Foreldarar sem fá ekki daggæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi“ sem stofnaður var í janúar á Facebook. Nú þegar eru hátt í 1200 foreldrar komnir í hópinn og skiptast þar á reynslusögum úr ólíkum bæjarfélögum. Neyðin er mörgum erfið og vandinn öllum augljós.

Ég og konan mín erum sjálf í þessum aðstæðum núna. Við eigum þrjú börn fædd 2011, 2013 og 2016 og höfum í öll skiptin tekið marga launalausa mánuði til að brúa bilið. Í þetta sinn blanda ég saman vinnu og færðingarorlofi á meðan konan mín er í fullri vinnu. Eina áástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag gengur upp er sú að tengdamamma tekur strákinn sem er 16 mánaða þá daga sem ég er að vinna. Öðruvísi gætum við ekki brúað bilið. Við erum heppin því ekki hafa allir  möguleika á brúa bilið með þessum hætti.

Fjölskylduvænna samfélag

Bilið verður seint brúað á skömmum tíma en það á heldur ekki að þurfa að taka mörg ár. Með því að samþykkja frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um lengra fæðingarorlof og tryggja markviss skref sveitarfélaga á borð við Reykjavík þar sem börn eru tekin fyrr inn á leikskólana en nú ert gert tryggjum við að bilið verði á endanum brúað. Einungis þannig komum við á fjölskylduvænna samfélagi og tryggjum að Ísland verði aðlaðandi kostur á ný fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur.

Magnús Már Guðmundsson, formaður SffR og borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 3. febrúar 2018.

 

 

Nýlegar færslur
Björk VilhelmsdóttirMagnús Már